136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

207. mál
[17:03]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvað menn kalla hól eða samstöðu, það er auðvitað mjög teygjanlegt og erfitt að átta sig á því. Sumir virðast kyssa vöndinn þegar þeir eru skammaðir og ekki átta sig á því að það er verið að skamma þá. Ég var hér að tala um mannréttindabrot sem eru mjög alvarleg og hæstv. ráðherra hefur ekki tekið á því þó að það sé búið að vera þekkt í heilt ár að verið sé að brjóta mannréttindi á Íslandi.

Ég get þó huggað hæstv. ráðherra með því að ætli hann að bæta við hvalveiðar og gefa út kvóta bæði á hrefnu og stórhveli mun ég styðja hann. Það er ekki útséð með það að ég geti einhvern tímann stutt hæstv. sjávarútvegsráðherra. En ég bið nú forláts á því að vera talinn sammála þegar ég er að benda á eitthvað það grófasta og ljótasta sem ég veit um, mannréttindabrot sem ekkert hefur verið gert í og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ekkert beitt sér í því að leiðrétta það eða leggja fram tillögur eða hugmyndir og reyna að ná sáttum við viðkomandi aðila sem urðu fyrir þessum mannréttindabrotum.

Enn og aftur má segja að Samfylkingin, flokkur sem er í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, hefur látið þetta yfir sig ganga og þykist vera jafnaðarmannaflokkur. Samfylkingarmenn kalla sig jafnaðarmenn í tíma og ótíma en láta þessi mannréttindabrot ganga yfir án þess að lyfta upp svo mikið sem litla putta til að reyna að koma í veg fyrir þetta skammarlega ástand og þessa hörmulegu stöðu sem er viðhöfð gagnvart þessum sjómönnum sem eiga rétt á og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur að eigi að fá bætur fyrir þau ósómaverk sem á þeim hafa verið unnin. (Forseti hringir.)