136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:44]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar við 2. umr. Staðreyndin er sú að frumvarpið, sem nú er lagt fram og snertir megingjaldahlið frumvarpsins, er gjörbylting. Gjörbreyting frá því frumvarpi sem lagt var fram í haust.

Komið hefur fram hjá hv. formanni fjárlaganefndar, Gunnari Svavarssyni, að tillögur ríkisstjórnarinnar, sem þetta frumvarp er, voru nánast ekkert ræddar í fjárlaganefnd heldur var þar af hálfu meiri hlutans lögð áhersla á að þetta væru tillögur ríkisstjórnarinnar sem meiri hlutinn mundi síðan láta ganga áfram til Alþingis.

Ég skil svo sem vandræðagang og erfiða stöðu meiri hlutans sem lætur kúga sig með þeim hætti að lúta gjörsamlega valdi ráðherranna og ríkisstjórnarinnar en allt þetta fær samt engan veginn staðist. Að meiri hluti fjárlaganefndar skuli ekki hafa haft bolmagn til að krefja ríkisstjórnina um annað vinnulag en við nú stöndum frammi fyrir. Þess vegna verður að segja að tillögurnar sem hér eru lagðar fram af meiri hluta ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar eru í sjálfu sér ráðherratillögur og hefði verið eðlilegra að ráðherra hefði sjálfur mælt fyrir þeim, því ekki er svo að nefndin hafi fjallað um þær að neinu marki.

Það er líka svo að fjárlög sýna stefnu viðkomandi ríkisstjórnar. Fjárlögin sýna í raun hvernig og hvar aflað skal tekna, hvernig þeim skal skipt á þegna samfélagsins og stefnu ríkisstjórnarinnar í því hvernig ráðstafa eigi útgjöldum og hvar forgangsröðunin er þar. Það má því segja að í frumvarpinu sem nú er lagt fram kristallist stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Megininntak frumvarpsins er niðurskurður, niðurskurður og aftur niðurskurður. Niðurskurður á velferðarstofnunum, niðurskurður í heilbrigðiskerfinu, niðurskurður í menntamálum, niðurskurður í atvinnumálum og atvinnuskapandi stuðningsaðgerðum. Hvar sem borið er niður er niðurskurður. Í tekjuöfluninni er valin sú leið að vera með nánast flatar skattahækkanir, sem gera ekki greinarmun á háum tekjum og lágum og leggjast þar af leiðandi þyngst á þá sem eru með lágar og miðlungstekjur. Þeir tekjuhæstu fara betur út úr skattahækkununum sem hér eru keyrðar áfram. Við höfum kynnst þessari stefnu Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin, að skattbyrðin skuli fyrst og fremst leggjast á lægri tekjur en vera hlutfallslega léttari á þá tekjuhærri en okkur kemur á óvart að Samfylkingin skuli nú styðja þá skattstefnu Sjálfstæðisflokksins.

Þegar horft er til útgjaldanna er niðurskurður í heilbrigðiskerfinu það sem stingur harðast í augun. Stórfelldur niðurskurður ofan á sveltistefnuna sem keyrð hefur verið áfram á undanförnum árum gagnvart heilbrigðisstofnunum landsins. Upplýsingar um greiðslustöðu þessara stofnana við gerð gjaldahliðar fjárlagafrumvarpsins hefur ekki legið fyrir en þó eru vísbendingar um að þar sé innbyggður verulegur halli og þær muni eiga í miklum greiðsluerfiðleikum nú við lok ársins. Tillögurnar sem hér eru lagðar fram miða ekki að því að létta eða styrkja heilbrigðisstofnanirnar inn í næsta ár.

Til að bæta gráu ofan á svart og er táknrænt fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins, nú með stuðningi Samfylkingarinnar, er að hækka skal komugjöld á sjúkrahúsum til að rétta af fjárhag heilbrigðisstofnananna, þ.e. að færa kostnaðinn enn meir á sjúklingana.

Þegar við í minni hluta fjárlaganefndar, sem stöndum sameiginlega að nefndarálitinu sem ég mæli fyrir, spyrjum um og leitum upplýsinga um tekjuáætlunina, vaxtagjöldin fyrir næsta ár, mörk og greiðsluþol ríkissjóðs til næstu ára o.s.frv., þá eru svörin: Ja, við vitum það ekki, við verðum að bíða eftir svörum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þannig hefur þetta verið að það virðist vera eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé í raun kominn með fjárlagagerðina hér á landi og hefði kannski verið eðlilegra að framkvæmdastjóri eða tilsjónarmaður af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stæði hér og svaraði fyrir frumvarp til fjárlaga.

Herra forseti. Áður en ég kem að nefndarálitinu sem slíku verð ég þó að fara nokkrum orðum um stöðuna og framtíðarsýnina og hvernig við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði metum hana.

Okkur er öllum ljóst að íslenskt samfélag stendur nú á miklum tímamótum eftir efnahagshrun og skipbrot frjálshyggjustefnunnar sem hér hefur verið rekin undanfarin 17 ár undir forustu Sjálfstæðisflokksins. Nú stöndum við frammi fyrir nýju tímabili, gjörbreyttum aðstæðum sem við höfum í sjálfu sér ekki kosið okkur, stöndum frammi fyrir því að nú verða íslenskur almenningur, íslensk þjóð og íslenskt atvinnulíf að axla byrðarnar sem skuldasöfnun þjóðfélagsins undanfarin ár skilur eftir sig. Íslenskur almenningur verður að borga útrásina og veisluhöldin, hvort sem þau voru afmælishátíðir þar sem fluttir voru inn frægustu hljómlistar- og söngmenn heimsins í einkaþotum til að skemmta hópnum sem var að skipta á milli sín eigum þjóðarinnar. Íslenskur almenningur verður líka að borga flug einkaþotnanna sem fluttu útrásarmennina á milli landa til að þeir gætu borist sem hraðast á milli til að veðsetja eigur þjóðarinnar og skuldsetja hana. Þetta er hlutskiptið sem við stöndum nú frammi fyrir.

Í upphafi ályktunar flokksráðsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem haldinn var nú fyrir nokkrum dögum, og þar sem lögð var fram aðgerðaáætlun um hvernig við bregðumst nú við gjörbreyttum aðstæðum í samfélaginu, segir, með leyfi forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur að þjóðin eigi val um að halda áfram á sömu braut eða velja sér aðra framtíð og breytt gildismat. Við erum bjartsýn á að framtíðin verði okkur gjöful með hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, félagshyggju, kvenfrelsis og friðarstefnu að leiðarljósi.“

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vísa enn frekar til þessarar ályktunar og aðgerðaáætlunar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð samþykkti á flokksráðsfundi sínum og er innlegg okkar og stefna inn í þann nýja tíma sem við nú siglum inn í:

„Þjóðin kallar nú eftir breyttum vinnubrögðum: Opnum og lýðræðislegum vinnubrögðum, heiðarleika, réttlæti og gagnsærri stjórnsýslu og ákvarðanatöku í hvívetna. Með slík vinnubrögð að leiðarljósi eigum við að vinna saman að endurreisn íslensks samfélags sem verður að byggjast á jöfnuði, jafnrétti, lýðræði, fjölbreyttu atvinnulífi og sjálfbærri þróun.“

Við endurreisn samfélagsins verða þarfir almennings í landinu fyrir öflugt velferðarkerfi, samábyrgð og jöfn tækifæri að vera í öndvegi en hverfa verður frá þeirri samfélagsgerð sem sniðin er að þörfum auðstétta og stóriðju. Tryggja þarf sérstaklega hag barna og möguleika þeirra í framtíðinni. Helstu verkefni næstu mánaða eru að tryggja að jöfnunartækifærin, sem enn eru til staðar, velferðarkerfið og lífeyrissparnaður hverfi ekki í sama svelg og fjármálakerfið og eignir og auðlindir landsins verði ekki seldar á brunaútsölu eða veðsettar upp í skuldir sem íslenska ríkið yfirtekur nú.

Erfiðleikarnir í íslenskum þjóðarbúskap og íslensku samfélagi um þessar mundir eru af mannavöldum, eins konar manngerðar náttúruhamfarir. Nokkrir tugir manna hafa á örfáum árum skuldsett þjóðina áratugi fram í tímann samtímis því að verðmæti og eignir hafa verið teknar frá henni með einkavæðingu ríkisstofnana á útsölukjörum, því að afhenda einstökum vildarvinum stórfyrirtækin, sjávarauðlindina og stofnanir eins og banka og fjarskiptafyrirtæki, Landssímann, svo nokkuð sé nefnt. Þessar grunnstoðir íslensks samfélags voru afhentar og sú félagslega ábyrgð sem þessar stofnanir áttu að þjóna í hinu íslenska samfélagi hvarf.

Ábyrgðin á þessum aðgerðum er fyrst og fremst á hendi ríkisstjórnarinnar sem lét þetta viðgangast með meðvituðu pólitísku afskiptaleysi, skorti á eftirliti og eðlilegu regluverki og ýtti að auki undir glórulausan ofvöxt íslensks fjármálalífs og voru beinir gerendur í gróðavæðingu íslensks samfélags með röngum ákvörðunum.

Vissulega eru horfurnar ekki góðar. Því er spáð að atvinnuleysi verði allt að 10% næstu tvö árin og fari ekki niður fyrir 5% fyrr en í fyrsta lagi árið 2011. Þrátt fyrir það er talið að verðbólgan nái nýjum hæðum og í upphafi næsta árs verði hún mest og geti farið yfir 20% en í áætlunartölum sem okkur voru birtar í fjárlaganefnd var gert ráð fyrir að hún mundi verða um 14% á næsta ári að jafnaði og voru það þó bjartsýnistölur. Þá er landsframleiðsla talin dragast saman á næsta ári og eins og hér hefur verið greint frá eru horfurnar einar þær verstu sem við höfum búið við og blasað hafa við þjóðinni síðan hún endurheimti sjálfstæði sitt.

Björgunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar einkenndust fyrst af aðgerðaleysi, síðan af taugaveiklun. Blikur voru á lofti strax á árunum 2004–2005 en þáverandi og núverandi ríkisstjórnir neituðu að horfast í augu við vandann allt þangað til bankakreppan skall á af fullum þunga í haust. Þá brást ríkisstjórnin við með því að leita eftir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og gekkst inn á skilyrði á borð við vaxtahækkanir, niðurskurð á útgjöldum hins opinbera og fleiri pólitíska skilmála sem ganga munu gegn hagsmunum þjóðarinnar. Í ofanálag horfði þjóðin upp á algjöra uppgjöf ríkisstjórnarinnar gagnvart Evrópusambandsþjóðum um ábyrgð íslenska ríkisins á svokölluðum Icesave-reikningum Landsbankans. Fátt var dapurlegra en að verða vitni að því hvernig íslensk stjórnvöld, þrátt fyrir yfirlýsingar um allt annað, lögðust svo gjörsamlega flöt fyrir kröfum Evrópuþjóðanna — sem sumir kalla vinaþjóðir sína í NATO og sumir kalla klúbbinn í Evrópusambandinu sem þá langar svo ofboðslega til að sameinast. Þegar forsætisráðherra sagði: Við látum þessa þjóð ekki kúga okkur, þetta eru óskyld mál, kröfur einstakra Evrópusambandsríkja á hendur íslenskum bönkum og fjármálastofnunum og það að leita samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Niðurstaðan reyndist verða sú að forusta stjórnarflokkanna varð gersamlega að leggjast marflöt fyrir hótunum, kúgunum og kröfum Breta og annarra Evrópuþjóða og samþykkja afarkosti og afarskilmála í sambandi við svokallaða Icesave-reikninga, nokkuð sem virtir lögfræðingar hafa kallað hreina þvingunarsamninga sem ekki ættu að eiga sér stað meðal siðmenntaðra þjóða, hvað þá að þjóðir sem starfa saman í bandalagi, geti þannig sameinast í því að beita eitt minnsta ríkið og eina minnstu þjóð í samfélaginu í Norður-Evrópu slíkum hótunum og þvingunaraðgerðum.

Þar með er ég ekki að segja að íslenska þjóðin eigi ekki að axla sínar skuldbindingar. Það er uppi veruleg og bein réttaróvissa um þær skuldir og kvaðir sem umræddar Evrópuþjóðir töldu sig geta lagt á hina íslensku þjóð, íslenskan almenning til að greiða upp skuldir og ábyrgðir útrásarvíkinganna, óráðsíumannanna eins og seðlabankastjóri kallaði þá, það var dapurlegt að verða vitni að þeirri uppgjöf.

Til viðbótar allri málsmeðferð hefur svo bæst skeytingarleysi gagnvart þeim þingræðis- og lýðræðishefðum og þeim stofnunum sem eiga að gæta hagsmuna almennings. Alþingi Íslendinga hefur margoft verið sniðgengið í ákvarðanatöku um þessi stóru hagsmunamál og Íslendingum verið haldið frá því. Öllum almenningi hefur verið sýnd dæmalaus óvirðing með skorti á upplýsingum, misvísandi skilaboðum frá ráðamönnum og virðingarleysi frá friðsömum mótmælendum. Loks er málsmeðferð í svokölluðum björgunaraðgerðum stórlega ábótavant af hálfu ríkisstjórnarinnar og þingmeirihluta hennar þannig að ekki stenst lágmarkskröfur um góða og lögmæta stjórnsýslu. Til dæmis að ekki skuli hafa farið fram lögformleg skipti á gömlu bönkunum og þeir gerðir gjaldþrota og þá er ákvæðum stjórnarskrárinnar storkað aftur og aftur.

Varðandi uppgjör bankanna liggur fyrir gríðarleg óvissa sem skiptir tugum ef ekki hundruðum milljarða kr. í óvissu um hvað getur fallið á íslenska ríkið í þeim efnum. Þess vegna er svo dapurt og sorglegt að verða vitni að þeim handahófskenndu vinnubrögðum, vinnubrögðum af hálfu ríkisstjórnar sem virðast miða fyrst og fremst af því að viðhalda og endurreisa óbreytt kerfi sem hrundi, koma þeim síðan aftur að kjötkötlunum sem fengu að fleyta til sín flotið og vænstu bitana á undanförnum árum, það eru vinir ríkisstjórnarflokkanna sem standa nú í biðröð til fá aftur til sín þær eignir sem ríkið hefur neyðst til að yfirtaka eftir hrun bankanna. Í þessu fjárlagafrumvarpi er ekkert reynt að leggja mat á þær skuldbindingar sem þarna geta staðið á íslensku samfélagi. Nei, en við getum rætt um það fram og til baka að skera þurfi niður fjárframlög til Landspítalans um 2,5 milljarða eða meira en hvort þeir tugir milljarða sem tapast og fara í súginn vegna handahófskenndra vinnubragða í þeirri erfiðu stöðu og dapurlegu sem upp var komin með þroti bankanna, þar getum við alveg talað í tugum milljarða og hundruðum milljarða. En þegar komið er að íslensku heilbrigðiskerfi þá eru upphæðirnar skornar við nögl, þá eru þær orðnar af þeirri stærð sem meiri hlutinn og ríkisstjórnin skilur.

Herra forseti. Þetta er inngangur hjá mér að því nefndaráliti sem við fulltrúar í minni hluta fjárlaganefndar höfum lagt fram, sá sem hér stendur fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hv. þingmenn Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins og Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Eins og hér hefur verið rakið þá eru þetta mestu niðurskurðarfjárlög, sumir kalla þau blóðug niðurskurðarfjárlög og forsætisráðherra upplýsti í viðtölum í fjölmiðlum í dag eða í gær að fyrirhugaður væri enn meiri niðurskurður jafnvel nú þegar í 3. umr. fjárlaga. Hvernig kemur þetta út? Jú, að óbreyttu stendur almenningur frammi fyrir auknu atvinnuleysi, minnkandi tekjum, hærri sköttum, auknum framfærslukostnaði, okurvöxtum og lækkandi eignavirði. Almennur kaupmáttur fellur á sama tíma og skuldir aukast hvort sem þær eru verðtryggðar, óverðtryggðar eða í erlendri mynt. Misgengishópar myndast og þeir hafa litla og oft enga möguleika til að bjarga sér úr ástandinu. Eins og nú horfir að óbreyttu og ekki síst fyrir aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar blasir við fjöldagjaldþrot hjá einstaklingum og fyrirtækjum með sársaukafullum afleiðingum fyrir allt atvinnulíf og kjör almennings í landinu. Þrátt fyrir að það sé eitt mikilvægasta hlutverk yfirvalda að gæta hagsmuna þegnanna bárust engar viðvaranir inn í samfélagið frá stjórnvöldum um hvað gæti verið í vændum, hvað væri í aðsigi. En þó hefur á undanförnum vikum verið gert opinbert að stjórnvöld höfðu ítrekað verið vöruð við í hvað gæti stefnt, bæði af innlendum og erlendum sérfræðingum, t.d. með bankana og fjármálalíf þjóðarinnar. Í stað þess að sinna þeim aðvörunum og aðvörunarbjöllum sem klingdu bæði heima og erlendis þá fóru stjórnvöld með í útrásina, héldu fundi með útrásarmönnunum hvort það var í Evrópulöndunum eða í Ameríku til að sannfæra fjármálaheiminn um að hér væri allt í lagi. Stjórnvöld völdu að ana áfram í fullkominni sjálfsblekkingu og láta sem ekkert væri. Hefði verið betur að þau hefðu áttað sig, þó að það hefði ekki verið nema fyrir hálfu ári eða einu ári. Á sl. vetri varaði stjórnarandstaðan þingið ítrekað við því að óbreytt stjórnarstefna, erlend skuldasöfnun og taumlaus óráðsía innan fjármálakerfisins gæti leitt til mikils ófarnaðar fyrir efnahagslíf landsins ef ekki væri þegar í stað brugðist við.

Eftir að bankahrunið skall á og meginhluti fjármálakerfis landsins hrundi á einni viku í byrjun október stóðu stjórnvöld lömuð og margt af því sem gert var þá af stjórnvöldum hefur síðan orkað mjög tvímælis. Þá hefur upplýsingagjöf stjórnvalda algerlega verið í molum. Minni hlutinn gagnrýnir leynimakk stjórnvalda heima og erlendis, á meðan bæði þingi og þjóð var haldið utan við umfjöllun og ákvarðanatöku í málum sem varða gífurlegt tap og risavaxnar skuldbindingar þjóðarinnar til næstu áratuga. Leiðbeiningar til almennings hafa verið í algeru lágmarki. Í frumvarpi meiri hlutans er ekki lögð fram nein skýr stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar um framtíðarsýn önnur en niðurskurður og niðurskurður. Þetta er stefna sem margar aðrar þjóðir sem hafa lent í kreppu og hremmingum — þó ekki eins stórum og við lendum í vegna stefnu stjórnvalda á umliðnum árum — hafa varað við, þær hafa varað við slíkum niðurskurði á öllum sviðum því það væri það hættulegasta sem gert væri. Menn yrðu að halda haus, menn yrðu að standa á bak við velferðarkerfið og atvinnulífið. En tillögur ríkisstjórnarinnar í þessum efnum virðast allar vera á annan veg og þegar spurt er hver það sé sem kveði á um eða reki eftir þessari niðurskurðarstefnu þá er svarið: Þetta eru kröfur og skilmálar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. (GuðbH: Hver hefur sagt það?) Alveg ítrekað, herra forseti, og ég kem að því síðar í ræðu minni af því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson kallar og spyr hver hafi sagt það. (GuðbH: Það hefur aldrei verið sagt í fjárlaganefnd. Þú skalt leiðrétta þetta.) Þess vegna höfum við í minni hlutanum lagt fram bréf til þeirra sem skrifuðu undir samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þ.e. fulltrúar Seðlabankans og fulltrúar fjármálaráðherra, þar sem við óskum eftir þeirri stöðu sem fjárlagagerðin og ríkisfjármálin eru í og að þeir aðilar sem undirgengust og skrifuðu undir þá skilmála íslensku þjóðarinnar geri grein fyrir þeim og ég kem að því á eftir, herra forseti.

Fram undan á næsta ári eru risavaxin og erfið verkefni sem felast í því að ná efnahagskerfinu og ríkissjóði aftur á réttan kjöl. Greiðslubyrði þjóðarinnar, lántökur, vaxtabyrði, lánstími og afborgunarskilmálar eru enn óþekktar stærðir. Það er vitað nokkuð hverjar hámarkslánsheimildir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru en lántökur og lántökukostnaður sem verður vegna skuldbindinganna í Evrópulöndunum er í óvissu. Það er látið að því liggja að Ísland muni þurfa á næstu einu til tveimur árum að taka lán og axla ábyrgðir á greiðslum sem gætu numið 1.200–1.400 milljörðum kr.

Herra forseti. Að venju var frumvarp til fjárlaga árið 2009 lagt fram á Alþingi í upphafi þings í byrjun október og eftir 1. umr. fór það til umfjöllunar í fjárlaganefnd í samræmi við þingsköp Alþingis. Þar með hafði framkvæmdarvaldið í raun skilað frumvarpinu til umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis. Nánast í sama mund féllu viðskiptabankarnir og þá hófst sú atburðarás sem allir þekkja. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega meðferð málsins eftir að frumvarpið kom til umfjöllunar á vettvangi Alþingis. Margar vikur liðu án þess að fjárlaganefndin fjallaði að nokkru marki um frumvarpið. Fjármálaráðherra og ríkisstjórnin tók málið í sínar hendur með stuðningi stjórnarmeirihlutans. Þar var unnið að breytingum á frumvarpinu og það var nánast endursamið eins og ég hef gert grein fyrir en fjárlaganefndin í heild, hinn lögformlegi vettvangur kom sáralítið og nánast ekkert að því verki. Það var ekki fyrr en fulltrúar fjármálaráðuneytisins mættu á fund fjárlaganefndar fimmtudaginn 11. desember að fjárlaganefnd voru kynntar tillögur ríkisstjórnarinnar um stórfelldan niðurskurð á gjaldahlið frumvarpsins. Enginn tími var gefinn til umræðna um frumvarpið í fjárlaganefnd, hvað þá að tími hefði verið gefinn til að leggja mat á áhrif einstakra tillagna, t.d. með því að ræða við aðila sem viðkomandi tillögur varða. Þetta vinnulag er lýsandi fyrir ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann. Alþingi er markvisst haldið frá málum meðan framkvæmdarvaldið kokkar niðurstöður sínar á bak við luktar dyr. Þessi vinnubrögð gagnrýnir minni hlutinn harðlega.

Minni hlutinn vísar til yfirlýsingar formanns og varaformanns fjárlaganefndar frá síðasta ári um bætt vinnulag við fjárlagagerðina sem hefur því miður ekki gengið eftir. En einmitt við þær aðstæður sem við búum við í efnahagslífi þjóðarinnar nú hefði verið afar brýnt að vera með enn meira og nánara samráð og að nefndir þingsins hefðu komið meira og betur að þeirri vinnu sem hér um ræðir. Þrátt fyrir þær tillögur sem meiri hlutinn leggur fram vantar mikið upp á að nú liggi fyrir heildarmynd af frumvarpinu. Enn hafa ekki komið fram tillögur varðandi ýmsa útgjaldaliði, t.d. vaxtagjöld á auknum skuldum sem ríkissjóður þarf að taka á sig og einnig vantar endurmat á verðlags- og gengisforsendum en horfur eru á að áhrif þeirra verði mjög íþyngjandi. Þá er í fyrirliggjandi breytingartillögum ekki gert ráð fyrir breytingum á öðrum liðum sjóðsstreymis á 5. gr. lánsfjárlagafrumvarpsins né heldur á 6. gr., heimildagreininni, þannig að margt á enn eftir að koma til að hægt sé að fjalla um frumvarpið í heild sinni.

Endanleg tillaga að tekjuáætlun frumvarpsins liggur heldur ekki fyrir og því ógerningur að gera tillögur um útgjöld eins og hér er gert eða hvernig á að gera tillögur um útgjöld ef ekki liggur fyrir úr hvaða tekjum er að spila? Forsendur til að gera þær útgjaldatillögur sem hér eru, sem eru reyndar flestar í formi niðurskurðar, án þess að vita hver tekjuáætlunin er eða hvert greiðsluþol ríkissjóðs verður á næsta og þarnæsta ári sýnir að vinnubrögð af þessu tagi eru algjörlega óforsvaranleg hvað sem um tillögurnar má segja.

Ég hef áður rakið að á útgjaldahlið breytingartillagnanna kemur fram niðurskurður á heimildum á nánast alla fjárlagaliði. Dregið er úr alls konar starfsemi og þjónustu á öllum sviðum. Gera má ráð fyrir að aðgerðirnar valdi auknu atvinnuleysi meðal fólks sem starfar á vegum ríkisins eða er í störfum sem fjármögnuð eru af fjárheimildum fjárlaga. Verið er að skera niður ýmsar fjárheimildir á sviði rannsókna, nýsköpunar, atvinnuþróunar og mennta á tímum sem aldrei hefur verið jafnmikil þörf fyrir að þróttmikið starf verði unnið á þessum sviðum. Þessi niðurskurður er gerður stefnu- og skipulagslaust og án þess að nokkur tilraun sé gerð af hálfu meiri hlutans eða ríkisstjórnarinnar til að leggja mat á hverjar afleiðingarnar verða fyrir atvinnuleysið og fyrir framþróunarmöguleika íslensks atvinnulífs sem okkur er brýn þörf nú á.

Á hinn bóginn koma fulltrúar ríkisstjórnarinnar og segja að störfin verði varin, störfin á vegum hins opinbera verði varin. Þessar yfirlýsingar koma ítrekað, meira að segja í miðju bankahruninu komu yfirlýsingar frá ráðherrum um að störfin í bönkunum yrðu varin. Þegar svo tillögur koma fram er allt annað upp á borðinu og væri fróðlegt að heyra hvernig ríkisstjórnin og ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar að verja það að þessi niðurskurður leiði ekki til uppsagna og fækkunar starfa.

Fjárhagur sveitarfélaganna, sem gegna lykilhlutverki í nærþjónustu samfélagsins, er skilinn eftir í uppnámi. Það er ljóst að tekjustofnar sveitarfélaganna lækka, tekjustofnar eins og jöfnunarsjóður. Almennt framlag í jöfnunarsjóð lækkar vegna minnkandi tekna í samfélaginu og þau aukaframlög sem sveitarfélögin höfðu sóst eftir eru ekki inni í þessu frumvarpi. Hins vegar er sveitarfélögunum bent á að þau geti hækkað útsvarið á þegnum sínum, þegnum sem fyrirsjáanlegt er að standa frammi fyrir tekjuskerðingu, þannig a hækkun á útsvari verður þeim lítil bót.

Benda má á að á undanförnum árum og reyndar á þessu ári líka hafa verið gerðar úttektir og áætlanir fyrir þá landshluta sem fóru illa út úr þenslu síðustu ára og hafa búið við neikvæðan hagvöxt einmitt vegna þenslunnar sem að mestu leyti var á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess. Ég nefni Vestfirði, Norðurland vestra, Norðurland eystra og ýmsir fleiri landshlutar og byggðir fóru illa út úr þeirri þenslu sem var á undanförnum árum og búa við neikvæðan hagvöxt. Sett hefur verið sérstök aðgerðaáætlun í gang, Vestfjarðaáætlun, Norðvesturáætlun, Norðausturáætlun. Þessum byggðarlögum, sem tóku á sig skerðinguna í góðærinu, er nú gert að taka fullan þátt í skerðingunni líka þegar er kreppa. Þessi samfélög verða að taka á sig skerðingu hvort heldur er í góðæri eða kreppu.

Herra forseti. Ég hef rakið mjög ítarlega að stefnan sem birtist í fjárlagafrumvarpinu miðar fyrst og fremst að niðurskurði og aftur niðurskurði og það skortir einhverja sýn fyrir framtíðina um að standa vörð um velferðarkerfið, heilbrigðisþjónustuna og atvinnulífið. Mörg grundvallaratriði skortir til að hægt sé að leggja mat á frumvarpið og þær tillögur sem hér eru lagðar fram. Við í minni hlutanum gerðum sérstaka bókun þegar meiri hlutinn tók frumvarpið úr fjárlaganefnd, við vorum við því andvíg og töldum það engan veginn undir það búið að vera tekið út, það skorti allar upplýsingar til þess. Raunar er ég þeirrar skoðunar að það frumvarp sem nú er unnið að skorti veigamiklar upplýsingar og þó að nú sé lofað einhverjum upplýsingum fyrir 3. umr. hef ég ekki trú á að þær komi inn með það sannfærandi hætti að hægt sé að byggja næsta fjárlagaár á þeim.

Ég hef á undanförnum þingum bent á hve fjárlagafrumvarpið og fjárlögin hafi breyst innan ársins og hef ítrekað lagt til með frumvarpi að það yrði skylda að gera fjáraukalög, fara yfir fjárlögin að vori í lok þings og breyta þeim að því marki sem þörf væri á. Hafi það einhvern tíma verið brýnt þá er það nú. Þess vegna sýnist mér allt stefna í það með fjárlögin nú og þessa fjárlagagerð að þau verði meira og minna marklaus, forsendulaus og framtíðarlaus.

Það mun hafa verið gert einhvern tíma á árum áður þegar hliðstæðar aðstæður komu upp, þó að þær hafi ekki verið jafngrafalvarlegar og þessar, að samþykkt var sérstök greiðsluheimild fyrir ríkissjóð vegna fyrstu mánaða næsta árs og afgreiðslu fjárlaga frestað til að þau mætti vinna betur. Mér sýnist á öllu, herra forseti, að við stöndum frammi fyrir þeirri stöðu núna að það sé ekkert vit í því að afgreiða einhver málamyndafjárlög sem eru ekki í takt við raunveruleikann, sem skortir verulega upplýsingar sem hægt er að byggja á og menn ættu frekar að vinna að greiðsluáætlun sem ríkissjóður gæti stuðst við og nýtt sér fyrstu mánuði ársins og síðan væri farið í að vinna ný fjárlög. Reyndar tel ég að það væri betra að ný ríkisstjórn gerði það.

Við þingmenn minni hlutans í fjárlaganefnd lögðum fram allmargar spurningar til fjármálaráðuneytisins þegar fulltrúar þess komu á fund fjárlaganefndar, um atriði sem út af stóðu og báðum um svör við þeim. Ég get nefnt sem dæmi að við óskuðum eftir að lögð væri fram rekstraráætlun fyrir ríkissjóð til næstu fjögurra ára. Í svari fjármálaráðuneytisins kom fram, með leyfi forseta, og líka til upplýsingar fyrir hv. þm. Guðbjart Hannesson um stöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins:

„Fyrirhugað er að vinna nýja langtímaáætlun um ríkisfjármálin sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir í kringum mitt næsta ár í samræmi við samkomulag IMF.“

(Gripið fram í.) Hv. þm. Guðbjarti Hannessyni finnst eitthvað dapurlegt að talað sé um að þetta sé í samræmi við samkomulag. Þetta er samkomulag sem verður að standa við og er í formi tilskipunar.

Einnig var spurt um greiðsluáætlun fyrir ríkissjóð til næstu fjögurra ára og svarið var eins, að beðið sé eftir að hún verði unnin í samræmi við samkomulag Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Svona er um fleiri spurningar sem komu afar fátækleg svör við eins og þegar spurt var um hver yrði fjármögnunarkostnaður, vextir og afborganir á næstu árum, árunum 2009, 2010 og 2011, þá var áfram vísað til þess að þetta lægi ekki fyrir og þess vegna væri ekki hægt að gefa þær upplýsingar.

Þess vegna ákváðum við, þingmenn í minni hlutanum, að ganga hreint til verks og spyrja þá sem skrifuðu undir samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sendum bréf sem fór til þeirra í morgun. Ég vil leyfa mér að lesa upp úr bréfinu, herra forseti:

„Bréf frá minni hluta fjárlaganefndar til fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands.

Vísað er til þingskjals 189, 161. máls, sem er tillaga til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og lögð var fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009. Jafnframt er vísað til fylgiskjals þingskjalsins, viljayfirlýsingar um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Undirritaður óskar eftir að ráðuneytið beri saman fjárlagafrumvarpið og einstaka liði í fyrrgreindu samkomulagi. Óskað er eftir skriflegri umsögn um:

Þau atriði í fjárlagafrumvarpinu sem hafa bein áhrif á markmið IMF fyrir ríkisbúskapinn og fjármál þjóðarinnar og hvernig þau standast áform samkomulagsins um að ríkissjóður nái hallalausum rekstri innan tilgreinds tíma.“ — Það er alveg ljóst að okkur hefur hvað eftir annað verið kynnt að þetta séu kröfur af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem sumir hafa kallað samkomulag, ég held að menn hafi kallað þetta þvingunarsamkomulag, en það er eins gott að fá upp á borðið hvernig þessar kröfur eru skilgreindar.

„Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir þeim atriðum í niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar sem eru til komnar vegna samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þeim verði skipt á málaflokka.“

Og enn fremur er óskað eftir svari við eftirfarandi spurningu:

„Ef tekjur ríkissjóðs reynast hærri en gengið er út frá í samkomulaginu, hvaða heimildir eru þá fyrir hendi til að nota þá aukningu við að draga úr niðurskurði ríkissjóðs, t.d. til heilbrigðismála og almannatryggingakerfisins?“

Við viljum fá það á hreint, herra forseti, verði tekjur meiri en áætlað var í drögum að samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hvaða heimild ríkissjóður hafi til að ráðstafa þeim tekjum.

Einnig hefur komið fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni koma hingað á þriggja mánaða fresti og taka út hver þróunin hefur verið og hvert hafi verið stefnt í fjármálum ríkisins. Við viljum fá að sjá, eins og kom reyndar fram í ræðu m.a. hæstv. forsætisráðherra hér, að við fáum þá rúsínu að ef vel hafi tekist til fáum afgreiðslu á næsta láni. Við viljum fá á hreint hver séu þessi ársfjórðungslegu viðmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hvernig þau eru skilgreind í fjármálum ríkisins og hvort þar geti verið skorður sem kalla á setningu nýrra fjárlaga til að mæta þeim kröfum eða viðmiðunum sem sjóðurinn hefur sett.

Þá óskum við eftir upplýsingum um stöðu heildarlána ríkissjóðs, væntanlegar lántökur næstu fjögur árin, áætlaðan vaxtakostnað og mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á hvað íslenska þjóðarbúið getur staðið undir háum lánum.

Loks óskum við eftir upplýsingum frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu um árlega greiðslubyrði afborgana og vaxta á árunum 2009– 2013.

Í þessu bréfi er beðið um nokkrar grunnupplýsingar sem við teljum að verði að liggja fyrir áður en hægt er að leggja mat á fjárlögin og afgreiðslu þeirra, og hvort sem okkur líkar betur eða verr að vera ofurseld hvort sem það heitir skilmálar eða samkomulag Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þá skulu öll þessi skilyrði og skilmálar vera upp á borðum. Það vantar mikið á að svo sé enn.

Herra forseti. Þegar við horfum á þær niðurskurðar- og svartsýnistillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram sem margir hafa gagnrýnt og telja hættulegt að fara inn á þá braut vil ég leyfa mér að vitna til tillagna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um aðgerðaáætlun sem ég vísaði til í upphafi máls míns og er forgangsröðun okkar í þessari erfiðu stöðu. Forgangsröðun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kemur fram í þessum tillögum: Niðurskurður í heilbrigðismálum og niðurskurður í menntamálum.

En ég vil gera að umtalsefni tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem lagðar voru fram á flokksráðsfundi fyrir nokkrum dögum. Ég vitna til þeirra sem okkar sýnar á málin. Við teljum reyndar að núverandi ríkisstjórn sé ófær um að taka á málum til næstu framtíðar þjóðinni til heilla, hún muni vera föst í sínu svarta fari og keppast við það eitt að endurreisa það samfélag og fjármálakerfi sem byggðist upp á undanförnum árum og hrundi.

Við viljum annað samfélag og teljum að til þess að það gerist þurfi nýja ríkisstjórn, ríkisstjórn sem miðar að því að bæta, styrkja og standa vörð um hag fjölskyldnanna og heimilanna í landinu og setja það í öndvegi en ekki fjármálalífið fyrst og fremst. Í því skyni er nauðsynlegt að styrkja velferðarkerfið og hlutverk sveitarfélaga í velferðarþjónustunni, að staða sveitarfélaganna og ábyrgð þeirra verði viðurkennd.

Við teljum t.d. að tenging atvinnuleysisbóta við fjölskyldustærð ætti að vera skýr og atvinnuleysisbætur hjá fjölskyldufólki ættu að hækka. Við viljum að almannatryggingakerfið verði byggt á framfærslu- og lífskjaratryggingu þar sem jöfnuður í lífskjörum og aðstöðu verði stóraukinn, jöfnuðurinn verði hafður að leiðarljósi. Við leggjum áherslu á að samfélagsstofnanir og samtök, svo sem skólar, heilbrigðisstofnanir, félagasamtök, sjálfseignarstofnanir, verði virkjuð og gert auðveldara að sinna sínum hlutverkum.

Við leggjum áhersla á að staða heimilanna verði skilgreind út frá þörfum barna og tryggt að misjafn fjárhagur hafi ekki áhrif á möguleika þeirra til að njóta bestu mögulegrar heilbrigðisþjónustu, skólagöngu og tómstunda. Það er ekki forgangsmál hjá okkur og við erum reyndar andvíg því að hækka komugjöld sjúklinga á sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir eins og tillögur meiri hlutans gera ráð fyrir.

Við teljum líka mikilvægt að tryggja að ekki verði dregið úr stuðningi við forvarnir og meðferðarúrræði í efnahagsþrengingunum. Það er aldrei meiri þörf en einmitt í þrengingum að standa vörð um þessa hópa. Við hefðum frekar viljað sjá og munum leggja til að tekinn verði upp hátekjuskattur á þá sem hafa hæstu tekjurnar eða þrepaskiptur tekjuskattur þannig að þeim sem eru með lægri og miðlungstekjur væri hlíft en byrðarnar færðar hlutfallslega meira á þá sem hærri hafa tekjurnar. Það er þveröfugt við það sem er í tillögum meiri hlutans þar sem er flöt tekjuskattshækkun.

Við leggjum áherslu á nýsköpun í atvinnu og byggðamálum og við teljum að leggja verði mikla áherslu á að styrkja alla framleiðslustarfsemi, verðmætasköpun í atvinnulífinu. Meðal þeirra greina sem huga þarf að sérstaklega er sjávarútvegur og landbúnaður og reyndar matvælaiðnaðurinn í heild sinni. Nýsköpun í þessum greinum svo og í öðrum greinum eins og sprotafyrirtækjum og smáum og stórum fyrirtækjum er gríðarlega mikilvægur. Í þessu frumvarpi er hann skorinn niður.

Við höfum lagt til að sjávarútveginum og stjórn fiskveiða verði breytt í ljósi þessara markmiða og m.a. að útflutningur á óunnum gámafiski verði stöðvaður, að minnsta kosti tímabundið, og hann tekinn inn til íslenskrar fiskvinnslu.

Við leggjum áherslu á að fjárveitingar hins opinbera verði fyrst og fremst færðar yfir í mannaflsfrekar aðgerðir og það sé gert meðvitað samkvæmt ákveðinni stefnu. Það sé þá ekki síst viðfangsefni sem væri á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga og hægt að stýra framlögum ríkisins í þeim efnum.

Ég hef lagt áherslu á landbúnaðinn og tel gríðarlega mikilvægt að við nú stöndum vörð um íslenskan landbúnað. Komið hafa hugmyndir um að leyfa hömlulausan innflutning á hráum kjötvörum og yfirtöku á matvælalöggjöf Evrópusambandsins en fátt væri vitlausara í þessari stöðu en það. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur þó enn boðað að það frumvarp komi fram. Við viljum standa á bak við íslenskan landbúnað og þar eigum við möguleika, bæði til innanlandsmarkaðar og líka til útflutnings. Því er afar brýnt að um hann sé sleginn skjaldborg.

Við höfum líka lagt áherslu á að í mennta- og menningarmálum sé þess gætt að ekki sé skorið niður þannig að það hafi neikvæð áhrif og slæmar afleiðingar fyrir samfélagið. Í þeim löndum sem lent hafa í fjárhagslegum hremmingum hefur einmitt verið lögð áhersla á að við þær kringumstæður verði að standa vörð um menntakerfið, um fjölþætta möguleika fólks sem misst hefur sína reglubundnu atvinnu til þess að geta sótt aftur sérmenntun og almenna menntun. Eins og nú horfir eru líkur til þess að eftirspurn eftir menntun og þörf samfélagsins til að svara þeirri eftirspurn fari vaxandi. Þá er ekki rétt leið að beita bara tillitslausum og vanhugsuðum niðurskurði á menntastofnanir landsins. Þessu hefur einmitt verið varað við. Við leggjum til að þarna sé hugað vel að hvernig fénu er varið.

En er einhver staður þar sem við viljum skera niður? Já. Ég get nefnt liði þar sem eru svo augljósir. Ég tel enga ástæðu til að við undir þessum kringumstæðum verjum tugum ef ekki hundruðum milljónum króna í samstarf við NATO, í þátttöku í herleiðöngrum NATO austur í lönd í starfi með NATO, samtökum þjóða sem beittu okkur hryðjuverkalögum. Eigum við í þeirri erfiðu stöðu sem við búum við að verja fjármagni í þau samtök? Nei, nær væri að setja það fjármagn inn á Landspítalann eða í menntastofnanir landsins.

Önnur stofnun eða verkefni sem við teljum að mættu hverfa er af sama meiði en það er hermálastofnunin eða Varnarmálastofnunin sem verið er að setja á stofn. (Gripið fram í.) Við þessar aðstæður? Er það brýnt að setja á stofn hermálastofnun hér? Nei. Væri ekki nær að setja þessa fjármuni inn í heilbrigðisstofnanirnar? Inn í háskólana? Væri það ekki meiri vörn? Jú. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum gjörbreyta áherslum í þessum efnum.

Herra forseti. Ég hef vísað til útgefins nefndarálits hvað varðar álit okkar félaga og hv. þingmanna sem skipum minni hluta fjárlaganefndar, þeirra hv. þm. Magnúsar Stefánssonar fyrir hönd Framsóknarflokksins og Guðjóns Arnars Kristjánssonar fyrir hönd Frjálslynda flokksins og þess sem hér stendur fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég vísa til þessa ítarlega nefndarálits sem liggur fyrir og ég veit að félagar mínir í minni hlutanum munu gera ítarlegri grein fyrir því en ég hef gert.

Ég vil í lok þessarar framsögu leggja áherslu á að í fyrsta lagi er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar á kolrangri braut í forgangsröðun á útgjöldum sínum og tekjuöflun. Stjórnarliðar viðurkenna að við erfiðar aðstæður sé að eiga. Ríkisstjórnin valdi að stilla sér einhliða upp með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ekki leita annarra leiða í að vinna sig út úr þeim gríðarlega fjárhags- og efnahagsvanda sem komið hafði yfir þjóðina sem almenningur var að stórum hluta saklaus af en verður að taka á sig byrðarnar.

Ég tel enn að hægt sé að snúa af þeirri braut. Það er sérstök ástæða til þess að þakka Færeyingum sem voru reiðubúnir að leggja okkur til fjárstuðning án þess að lúta ofurkjörum eða kúgunum af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða Evrópuþjóðunum í ESB og NATO.

Við viljum fara inn á þá braut sem ég hef hér rakið og Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill fara þar sem börn og heimili eru sett í fyrirrúm, þar sem menntun og félagshyggja ráði ferð og er áhersluatriði. Þar sem styrking innlends atvinnulífs til sjávar og sveita, nýsköpunar og hátækni er höfð að leiðarljósi og það er treyst á innlenda orku, kraft og þekkingu til að byggja upp enn öflugra atvinnulíf og við getum bjargað okkur og borgað okkar erlendu skuldir og komið okkur aftur á þann stall sem við viljum vera á meðal þjóða í efnahagslegu tilliti á nýjum forsendum.

Þetta frumvarp gerir það ekki talnalega séð og það sem er undirliggjandi er svo ótrúverðugt. Það vantar svo mörg gögn til að hægt sé að leggja mat á það. Þess vegna vorum við þeirrar skoðunar að málið væri ekki tækt eins og það lá fyrir af hálfu meiri hlutans úr hv. fjárlaganefnd til Alþingis og bæri að vinna betur að því. En ég vil árétta að mér sýnist horfa í að Alþingi vinni frumvarp um greiðsluheimildir handa ríkissjóði til þess að hann geti mætt skuldbindingum sínum á fyrstu vikum og mánuðum næsta árs. Við viljum að fjárlagafrumvarpið verði unnið betur, það dregið til baka og unnið betur. Síðan verði lagt fram nýtt fjárlagafrumvarp sem byggir á annarri sýn og betri grunnforsendum þegar líða tekur á næsta ár, herra forseti.