136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög gamalkunnug aðferð þegar menn eru í nokkurri nauðvörn í málflutningi sínum að snúa því upp á andstæðinginn og krefjast þess að hann komi með lausnirnar. Það er í sjálfu sér rétt í þessu tilliti, ekki hefur stjórnarliðið þær. Við teljum vissulega að hægt sé að draga meira úr útgjöldum á ákveðnum sviðum. Ef hv. þingmaður les t.d. nefndarálit minni hluta utanríkismálanefndar eru uppástungur um það, ekki endilega til að spara allt það fé og draga úr halla á ríkissjóði heldur t.d. til að hlífa þá frekar þeim ömurlega niðurskurði á framlögum til mannúðaraðstoðar, hjálparstarfs og þróunarsamvinnu sem er uppistaðan í sparnaðartillögum utanríkisráðuneytisins. Þar er satt best að segja farið ákaflega mjúkum höndum um „establismentið“ sjálft þegar betur er að gáð og ekki gengið langt í því að skera niður sendiráð, hvað þá að hrófla við óskabarninu Varnarmálastofnun, sem á að halda drýgstum hluta sinna fjárveitinga, sem er algjör óþarfi og auðvitað á að leggja hana niður. Ef það er rétt hjá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og Flugstoðum að þær stofnanir geti annast þá starfsemi fyrir 400–450 millj. kr. minna fé á auðvitað að skoða það þó að við teljum reyndar að hægt sé að ná þessum sparnaði öllum.

Segjum nú að við skoðuðum þann kost að afla tekna upp á 3–4,5 milljarða kr. Mér reiknast svo til að með tiltölulega vægri útgáfu af hátekjuskatti og með því að lækka tekjur af honum um kannski 20% frá því sem þær hefðu gefið á þessu ári gæti hann samt gefið a.m.k. 3 milljarða kr. Og segjum að við sættum okkur við 5–7 milljarða halla í viðbót. Eða hver eru rökin, hvar liggja nákvæmnisvísindin í því að hann megi að vísu róla sér á milli 160 og 170 milljarða en alls ekki vera t.d. 5 milljarðar í viðbót? Ég held að ég viti svarið, ég er búinn að fara yfir það. Segjum að við næðum þannig og með sparnaði, sem við skulum svo sannarlega hjálpa meiri hlutanum til við að koma með, 2, 3 milljörðum í viðbót, þá gætum (Forseti hringir.) við verið að tala um svigrúm upp á kannski 10, 12 milljarða í viðbót og að sama skapi minni niðurskurð í velferðarmálum.