136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[17:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dreg ekkert til baka með það að málflutningur hv. þingmanns áðan var eins og svissneskur ostur, töluvert götóttur eins og hann hafði sjálfur á orði um frumvarp til fjárlaga sem hér liggur fyrir. Ég var ekki að reyna að snúa út úr orðum þingmannsins. Ég lagði þetta saman eins og það kom fyrir af skepnunni. Það var ekkert flókið við það. Við erum að ræða fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Við höfum vissulega kallað eftir tillögum, sjónarmiðum um það með hvaða hætti unnt er að nálgast það að draga úr þeim útgjöldum sem fyrirsjáanleg eru. Ég deili áhyggjum með hv. þingmanni í því að þenslan í útgjöldum ríkisins á síðustu árum hefur verið með þeim hætti að erfitt mun verða að draga úr því. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir að það verður ekki gert í einu vetfangi. Ég hlakka hins vegar til að fá að sjá þær tillögur sem koma frá þingflokki Frjálslynda flokksins undir öruggri og tryggri stjórn hv. þingmanns sem lúta að úrbótum í ríkisrekstrinum á þeim nótum sem hann kynnti áðan. Ég lýsi yfir áhuga á að fá að fylgjast með því þegar þær koma fram.

Ég skulda hv. þingmanni einnig svar varðandi hugmyndir mínar um lækkun ríkisútgjalda og tel í sjálfu sér ástæðulaust að fara ofan í þær í einstaka liðum en víða eru færi í því. Ég hef lagt á það áherslu og lagði á það áherslu í ræðu minni í dag að okkur ber að skoða alla þætti. Ég bendi á að það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort við eigum að verja 41 milljarði til framkvæmda í viðhald og stofnkostnað á næsta ári í ljósi þeirrar stöðu sem er. Ég bendi á að það er líka umhugsunarefni hvort við eigum að verja rúmum 200 milljörðum í svokallaðar tilfærslur. Þannig gæti ég haldið áfram. Þetta er allt álitaefni. Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því að frá ríkisstjórninni komi einhverjar tillögur að frekara aðhaldi fyrir 3. umr. fjárlaga.