136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[21:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið í máli fjölmargra þingmanna fjöllum við um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009 út frá býsna sérstökum forsendum. Bent hefur verið á að í raun hafi verið lagt fram nýtt frumvarp til fjárlaga. Hér eru vinnubrögðin algerlega ný af nálinni og því er brugðið við að við stöndum á svo sérstökum tímamótum að sérstök vinnubrögð þurfi til að mæla fyrir fjárlagafrumvarpi. Þetta er látið heita svo að hér séu á ferðinni breytingartillögur frá meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga.

Á þskj. 338 eru prentaðar breytingartillögur við frumvarpið frá meiri hluta fjárlaganefndar. Öllum er hins vegar ljóst, enda hefur það komið fram í umræðunni og í skýringum, að hér eru ekki á ferðinni breytingartillögur frá meiri hluta fjárlaganefndar. Hér er á ferðinni nýtt fjárlagafrumvarp frá ríkisstjórninni og við þær aðstæður hefði verið eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra hefði kallað til baka frumvarp sitt til fjárlaga og mælt fyrir nýju frumvarpi miðað við algerlega gerbreyttar forsendur. Um það mál hefðu þá átt að fara fram þrjár umræður eins og ævinlega um lagafrumvörp. Þetta er skemmri skírn, ítarlegum breytingartillögum er dreift án þess að þær hafi verið ræddar af nokkru viti í nefndum, hvorki í fjárlaganefnd og enn síður einstökum fagnefndum sem fjalla jú um fjárlagatillögur viðkomandi málaflokks.

Ég gagnrýndi áðan í andsvari við hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að engin umræða hefði farið fram um þær breytingartillögur sem hér eru gerðar, t.d. á samgöngupakkanum á vettvangi samgöngunefndar. Þó hafði nefndin að sjálfsögðu fengið til umfjöllunar þann hluta frumvarpsins sem lýtur að samgöngumálum. Slík vinnubrögð tel ég ekki vera til eftirbreytni.

Ég minnist þess að hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, hafði um það stór orð og mikil og miklar heitstrengingar við umræðu um fjárlagafrumvarpið í fyrra að nú ætti aldeilis að breyta vinnubrögðum. Nú sjáum við hvernig hann hefur breytt vinnubrögðum við fjárlagagerðina. Hann tekur við plaggi frá fjármálaráðuneytinu, setur stafina sína á það og segir: Hér eru breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar.

Þetta eru vinnubrögð sem við gagnrýnum. Vel kann að vera að sú gagnrýni falli ekki í góðan jarðveg hjá stjórnarliðum og ýmsir þingmenn stjórnarflokkanna koma hér upp og gefa okkur úr stjórnarandstöðunni einkunn fyrir málflutning okkar, en ég held að innst inni séu þingmenn stjórnarflokkanna sammála okkur í því að svona eigi ekki að vinna þessa hluti.

Nú erum við ekki að gera lítið úr því að aðstæður í efnahagslífinu hafa gerbreyst frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október og á þeim málum þarf að taka með öðrum hætti en við hefðum gert við eðlilegar og venjulegar kringumstæður. Þá hefði að mínu viti verið skynsamlegt að fara þá leið, sem m.a. kom fram hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur nú rétt áðan, að leggja ítarlega vinnu í nýtt fjárlagafrumvarp á vettvangi fjárlaganefndar. Menn hefðu þá þurft að taka sér þann tíma sem þarf til að vinna slíkt og kafa ofan í forsendur málsins, því að þær liggja ekki fyrir, og afgreiða þá frekar greiðsluheimildir til ríkissjóðs þannig að unnt yrði að standa við skuldbindingar svo sem launagreiðslur og samningsbundnar greiðslur um áramót en að nýtt fjárlagafrumvarp yrði afgreitt hér á fyrstu vikum nýs árs og þá á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem eðlilegt er að þingið hafi undir höndum þegar fjallað er um fjárlagafrumvarpið.

Svo hefur verið bent á það í umræðunni að í raun er þetta fjárlagafrumvarp afurð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann setur skilmála um hvað má vera í fjárlagafrumvarpinu, hvert umfang ríkisrekstursins má vera og hæstv. forsætisráðherra hefur jafnvel boðað að frekari tillögur um niðurskurð komi til álita. Við ræðum útgjaldaramma fjárlaganna fyrir árið 2009 og á sama tíma og það er gert hefur hæstv. forsætisráðherra boðað að til enn frekari niðurskurðar kunni að koma. Hvar á hann að koma fram og hvenær á hann að koma fram og hvernig á að vinna hann á vettvangi Alþingis? Eða verður það með sama hætti að meiri hluti fjárlaganefndar tekur við tilbúnu plaggi — kannski ekki í það skipti frá fjármálaráðuneytinu heldur frá forsætisráðuneytinu — um enn frekari niðurskurð, án þess að það fái í raun og veru nokkra yfirlegu og án þess að menn hafi nokkurt ráðrúm til að spyrja eðlilegra og gagnrýnna spurninga um hvað er á bak við þær tillögur sem fjallað er um?

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir gagnrýndi okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sérstaklega, einkum og sér í lagi hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúa okkar í fjárlaganefnd, fyrir að leyfa okkur að gagnrýna tillögur ríkisstjórnarinnar en hafa engar tillögur á móti. Ég vil segja af fullum þunga, en líka í fullri vinsemd, að mér finnst ekki manndómsbragur að því hjá hv. þingmanni að koma með slíka palladóma. Hv. þm. Jón Bjarnason, eins og aðrir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna, hefur fengið ákaflega lítið ráðrúm og lítinn tíma til að fara yfir gerbreyttar forsendur, gerbreytt fjárlagafrumvarp. Engu að síður leggja þingmenn stjórnarandstöðunnar sig að sjálfsögðu fram um að vinna í samræmi við sannfæringu sína og stefnu flokka sinna við að koma áherslum sínum á framfæri og ekki er hægt að ætlast til þess að um leið og þeir bregðast við tillögum meiri hlutans, sem koma beint úr ráðuneytinu og hafa enga umfjöllun fengið á vettvangi nefndarinnar svo heitið geti, séu þeir tilbúnir með alveg nýjar tillögur úr eigin ranni. Það er ekki sanngjarnt að gera kröfur um það, sérstaklega í ljósi þess að ekki liggja fyrir neinar almennilegar forsendur fyrir því sem hér er lagt til.

Við, þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, höfum vakið máls á nokkrum þáttum sem við erum ósátt við í þeirri forgangsröðun sem birtist í endurskoðuðu fjárlagafrumvarpi. Við gerum okkur grein fyrir því að með falli í tekjum hins opinbera og breyttum forsendum í kjölfar hruns í efnahagslífinu eru nýjar forsendur. Við erum ekki að gera lítið úr því en teljum að forgangsröðunin hefði mátt vera önnur við niðurskurðinn og við erum ekki endilega sammála því mati sem kemur fram hjá ríkisstjórninni um hversu umfangsmikill niðurskurðurinn á að vera. Við bendum á að hér hefur verið settur einhver rammi af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við erum ekki sammála forsendunum sem þar eru gefnar og teljum að allt of bratt sé farið í þessa hluti og líkur séu á því að þessi gríðarlegi niðurskurður muni heldur magna efnahagskreppuna þegar á næstu missirum og árum en ella. Þegar horft er fram á verulegt tekjutap einstaklinga og fjölskyldna á næstunni, stóraukið atvinnuleysi, atvinnuleysistölur sem við höfum ekki séð á Íslandi um áratuga skeið, ef nokkurn tíma, verður að haga hagstjórninni þannig að hið opinbera reyni að draga úr þessum geigvænlegu áhrifum en ekki magna þau. Hvernig er það gert? Það er frekar gert með því að hið opinbera, ríki og sveitarfélög örvi efnahagsstarfsemina með ýmsum hætti og tryggi að fólki sé ekki sagt upp í hópum, hundruðum eða þúsundum saman, heldur haldi uppi starfsemi, bæði rekstri og framkvæmdum til þess einmitt að halda hjólum efnahags- og atvinnulífsins gangandi. Það þýðir að sjálfsögðu að hið opinbera verður að taka á sig meiri skuldaaukningu en ríki og sveitarfélög taka á sig í venjulegu árferði. Það segir sig sjálft.

Þá komum við aftur að því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett skilmála. Ég minni á að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vorum ósátt við þá aðgerð og töldum ekki — og fórum yfir rökin fyrir því í ítarlegu máli — að sú leið væri skynsamleg fyrir okkur, a.m.k. ekki í því umfangi sem gert var gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ég held að þar sé m.a. komin orsökin eða hluti af orsökinni fyrir því hvernig komið er fyrir okkur. Við horfum á geigvænlegar lántökur með miklum vaxtakostnaði á næsta ári og áreiðanlega ekki síður árið 2010, sem nemur jafnvel allt að fjórðungi af umfangi fjárlaganna, að fjórða hver króna af fjárlögunum fari í afborganir eða vexti af þessum skuldbindingum. Við leyfum okkur, virðulegi forseti, að gagnrýna það og vel kann að vera að þingmenn stjórnarliðsins vilji setja undir sig hausinn og fara í þennan niðurskurð og þennan slag og segja, eins og oft heyrist í þessum sölum, að ekki sé um neitt annað að ræða, við verðum að fara í þetta. Þeir kunna að hafa þessa skoðun en við teljum, eins og margoft hefur komið fram, að það sé ekki endilega rétta leiðin.

Við höfum bent á að verið er að fara í verulegan niðurskurð í velferðarkerfinu og menntakerfinu, og blóðugt er að sjá hvað þar er gengið gassalega fram á sama tíma og stjórnarherrarnir segja að einmitt á samdráttartímum, þegar horft er fram á vaxandi atvinnuleysi, þurfi að gefa fólki kost á því að afla sér frekari þekkingar, færni og menntunar. Eftirspurn inn í skólakerfið mun vaxa en samtímis, eins og hér hefur verið bent á, eru tennurnar að vissu leyti dregnar úr þessu sama kerfi, hvort sem það er rannsóknarfé og rekstrarfé háskólanna eða Lánasjóður íslenskra námsmanna, þannig að við getum ekki annað en haldið því fram að þessi forgangsröðun og þessar áherslur séu óréttlátar og ekki í anda góðrar jafnaðarstefnu að okkar dómi. Á sama tíma eru álögur í heilbrigðiskerfinu auknar með komugjöldum. Almennar skattahækkanir eru boðaðar, tekjuskattshækkun og útsvarshækkun, sem fara þannig yfir kerfið að þær koma hlutfallslega verr við þá sem hafa lágar og miðlungstekjur en þá sem hafa háar tekjur. Hér hefur því verið hafnað að fara leið hátekjuskatts og því haldið fram að hann sé bara táknrænn, þess vegna hafi það ekkert upp á sig, en ég er ekki viss um að þjóðin sé þeirrar skoðunar. Ég held að þjóðin sé almennt þeirrar skoðunar að eitthvert réttlæti þurfi að vera í málinu og það sé réttlátt að þeir sem hafa háar tekjur, ég tala nú ekki um geysiháar tekjur, leggi meira af mörkum, ekki bara með sömu prósentutölu, sem þýðir eitthvað fleiri krónur, heldur líka hlutfallslega af því að það er einfaldlega af meiru að taka þar.

Verðbólgan æðir áfram. Vextir eru gríðarlega háir og fólk tekur á sig aukna greiðslubyrði af húsnæðislánum sínum á sama tíma og það kemur skattahækkun, á sama tíma og launin lækka og kaupmátturinn rýrnar, þannig að allt kemur þetta verst við þá sem hafa lágar tekjur og meðaltekjur. Það er dagljóst, allir hljóta að sjá það, þannig að þessi forgangsröðun er að okkar mati röng.

Ég vil gera að umtalsefni málefni sveitarfélaganna, sem við höfum oft fjallað um í haust, og þær erfiðu aðstæður sem þar blasa við. Mörg okkar koma úr sveitarstjórnarumhverfinu og við þekkjum mætavel það sem sveitarfélögin glíma við vítt og breitt um landið. Bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson og Kristján Þór Júlíusson, margreyndir sveitarstjórnarmenn, vita nákvæmlega hvar skórinn kreppir í rekstri sveitarfélaganna og hversu erfitt er fyrir mörg þeirra að ná endum saman og að þurfa að vera háð framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga — ég á enn 23 mínútur eftir, frú forseti, ég vek athygli þingmannsins á því. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði að hún teldi óviðunandi hversu mörg sveitarfélög væru háð miklu framlagi úr jöfnunarsjóðnum þegar jafnvel 30%–40% af tekjum þeirra væru framlag úr honum. Rétt er að það er ekki góð staða en nú er ekki tíminn til að krukka í það. Við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson höfum oft rætt um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og hvernig ætti að gera breytingar á honum þannig að hann þjónaði betur hlutverki sínu og stundum verið sammála og stundum ósammála. En ég held að við hljótum að geta verið sammála um að nú verður að tryggja sérstaklega þeim sveitarfélögum sem verst standa viðunandi rekstrarafkomu á næstu missirum, næsta ári, þar næsta ári. Þess vegna finnst mér mjög bagalegt að sérstakt viðbótarframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga upp á 1.400 millj. kr. hafi verið skorið út. Upphaflega var það í tvennu lagi, 700 millj. kr. plús 700 millj. kr., en það er skorið út og nú er það bjargráð ríkisstjórnarinnar að heimila sveitarfélögunum útsvarshækkun til að standa undir tekjutapinu sem verður vegna jöfnunarsjóðsins.

Nú er auðvitað ljóst að útsvarshækkun til sveitarfélaga, flöt prósentuhækkun, mun ekki skila sér í sama hlutfalli til sveitarfélaganna og framlög úr jöfnunarsjóði og ég geng út frá því að ætlunin sé að útsvarshækkuninni verði skipt með einhverju móti þannig að hluti af henni komi beint inn í jöfnunarsjóðinn en hluti fari inn í viðkomandi sveitarsjóði í því hlutfalli sem útsvarshækkuninni nemur. Þetta veit ég ekki en hefði þótt fróðlegt að fá upplýsingar frá fjárlaganefndarmönnum um hvernig þetta er hugsað eða hvort þessi 0,5 prósentustiga hækkun á útsvarinu er að fullu hugsuð þannig að hún fari til sveitarfélaganna hvers um sig, eins og hún kemur fyrir. Alla vega upplýsti hæstv. samgönguráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála mig um það þegar ég bar fram fyrirspurn til hans fyrir nokkrum dögum síðan að meiningin væri að útsvarshækkunin ætti að geta komið að hluta inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þess vegna hefði ég viljað fá að vita með hvaða hætti það er gert.

Þá kem ég aftur að því að útsvarshækkunin leggst með meiri þunga á þá sem hafa lágar og miðlungstekjur heldur en þá sem hafa háar tekjur þannig að ég tel að hér sé ekki farin sú jöfnunarleið sem ég hefði viljað sjá og tala fyrir og hefði auðvitað ætlast sérstaklega til að jafnaðarmannaflokkur Íslands hefði beitt sér fyrir. Ég leyfi mér að gera býsna ríkar kröfur til hans í þessu efni og veit að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er sammála því og vill gjarnan rísa undir því trausti en því miður sér þess ekki stað að eftir því sé unnið.

Á þeim tímamótum sem við stöndum nú frammi fyrir með vaxandi atvinnuleysi og erfiðari fjárhagsstöðu heimilanna verður hlutverk sveitarfélaganna enn ríkara en ella. Þá meina ég að því er varðar velferðarþjónustu, fjárhagsaðstoð, ráðgjöf hvers konar og á sama tíma og kaupmáttur fjölskyldnanna rýrnar er hætt við því að fjölskyldur vilji spara, m.a. í tengslum við leikskólagjöld, gjöld í frístundastarfsemi fyrir börnin, skólamáltíðir o.s.frv. og þar eru hlutir sem ekki má spara að mínu viti. Sveitarfélögin munu lenda í vandræðum vegna þessara þátta og þess vegna hef ég talið að við hefðum frekar þurft að beina auknu fjármagni til sveitarfélaga og gera þeim kleift að sinna þessu mikilvæga hlutverki.

Í Noregi fer ríkisstjórn undir forustu jafnaðarmanna, flokksfélaga hv. þm. Gunnars Svavarssonar, þá leið að tryggja sveitarfélögunum, með framlögum úr ríkissjóði, tekjutapið sem þau verða fyrir vegna falls í útsvarstekjum. Til hvers? Til þess að þau geti sinnt heima í héraði þessari mikilvægu grunnþjónustu, til þess að þau geti tekið á sig aukin framlög eða aukinn kostnað vegna fjárhagsaðstoðar, atvinnuskapandi aðgerða o.s.frv. Þarna er smiðja sem ég tel að leita hefði átt í, til félaga okkar í Noregi.

Ég ætla líka að nefna samgöngumálin vegna þess að verulegur niðurskurður er í framlögum til þeirra. Í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar við fjárlagafrumvarpið sýnist mér gert ráð fyrir niðurskurði í málaflokkunum upp á 18 milljarða eða þar um bil, þ.e. á útgjöldum málaflokkanna. Af því eru samgöngumálin með um 8 milljarða, ef ég hef skilið það skjal sem hér er til umræðu rétt. Í samgöngumálunum er 8.087 millj. kr. niðurskurður af heildarupphæð upp á 18 milljarða. Niðurskurður í samgöngumálum vegur 44% af niðurskurðinum en rekstur samgöngumála er um 11% af heildarupphæð fjárlaga. Samgöngumálin taka því á sig hlutfallslega fjórum sinnum meiri niðurskurð en sem nemur hlutdeild þeirra í fjárlögunum almennt.

Hvar er svo skorið niður þarna? Verulegur niðurskurður er til svokallaðra samgönguverkefna en það eru framkvæmdaverkefni á sviði vegamála. Þarna eru líka hlutir eins og samningsbundnar greiðslur, m.a. vegna niðurgreiðslu á innanlandsflugi, almenningssamgöngurnar, niðurgreiðslur vegna þeirra. Ég hefði talið að þegar væri búið að ganga frá samningum um þau mál og velti fyrir mér hvernig ríkisstjórnin hyggst fara í það, hvort engu að síður eigi að skera þau niður eða hvort þau séu undanskilin. Það kemur ekki fram í þeim gögnum sem við höfum fengið enda hefur nefndin ekki fengið það til umfjöllunar.

Verulegur niðurskurður er á framlögum til Umferðarstofu, mér sýnist að þar sé um 236 millj. kr. niðurskurður á framlögum. Ekki kemur nákvæmlega fram í hverju hann felst eða hvernig Umferðarstofa á að geta tekið á sig svona mikinn niðurskurð þegar haft er í huga að Umferðarstofa er, samkvæmt upphaflega fjárlagafrumvarpinu, með framlög upp á 450 millj. kr. en á að taka á sig 230 millj. kr. niðurskurð. Það lætur nærri að vera upp undir helmingur af þeim framlögum sem til hennar fara, eða tæplega 50%. Það er ekki lítið og mér leikur forvitni á að vita í hverju það á að vera fólgið.

Ég hef spurst fyrir um hafnarframkvæmdir sem eru teknar niður um 500 millj. kr. Af því er reyndar tæplega helmingur í eitt verkefni, þ.e. Landeyjahöfn. Greinilega á að fresta tilteknum hluta framkvæmda við höfnina til að ná þessum sparnaði inn og ekki liggur fyrir í hverju það er fólgið, ekki liggur fyrir hvað búið er að binda í samningum, það kemur ekki fram í þessum gögnum. Síðan eru um 260 millj. kr. í önnur samgönguverkefni, ósundurgreint, sem er auðvitað mikilvægt að fá upplýsingar um í hverju er fólgið.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að ég tel að það sé einmitt mikilvægt þegar við stefnum inn í jafnmikið atvinnuleysi og raun ber vitni að við reynum að halda uppi framkvæmdum, m.a. í samgöngumálum, sem eru sennilega einar arðbærustu framkvæmdir sem hægt er að fara í í samfélaginu. Mér er því lífsins ómögulegt að skilja af hverju þær eru skornar svona mikið niður. Af 25 milljörðum eða þar um bil, sem voru í upphaflegu frumvarpi til fjárlaga, eru 5–6 milljarðar skornir niður í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar. Það er um 20% til 25% niðurskurður. Það er ekki lítill niðurskurður á svona stórum lið.

Einnig er lagt til að taka út framlög í Fjarskiptasjóð 100%. Lagt er til að sú fjárheimild, 410 millj. kr. á árinu 2009, falli algjörlega niður og allri frekari uppbyggingu verði frestað. Á sama tíma er rætt um mikilvægi þess að efla fjarskipti því að þau geti verið liður í uppbyggilegri atvinnustarfsemi vítt og breitt um landið, hvers konar fjarvinnslu, möguleikum fólks til að stunda fjarnám o.s.frv. Þá er þessi liður tekinn í heild sinni og skorinn burt. Ég velti fyrir mér hvað reki fólk áfram með slíka forgangsröðun.

Virðulegi forseti. Ég held að ekki hafi farið fram neitt sérstaklega ítarleg umræða á vettvangi þingmanna stjórnarflokkana um það sem hér er á ferðinni. Eins og ég hef þegar sagt þá held ég að menn hafi einungis tekið við plaggi úr fjármálaráðuneytinu og ekki sé um sérstaka pólitíska yfirlegu að ræða hvað varðar forgangsröðun — ef svo hefur verið tel ég forgangsröðunina alla vega alranga.

Ég ætla að leyfa mér að nefna aðeins umhverfismálin. Umhverfisráðuneytið er eitt smæsta ráðuneytið í fjárframlögum. Samkvæmt upphaflegu frumvarpi til fjárlaga voru aðeins 1,5% af útgjöldum ríkisins ætluð umhverfisráðuneytinu og stofnunum á vegum þess en það á samt að bera um 4% af niðurskurðinum, þ.e. þrisvar sinnum meira en nemur hlutdeild ráðuneytisins og málaflokka sem því tengjast í fjárlögunum sjálfum. Það gefur líka vissar vísbendingar um þær áherslur og það mat sem einkennir tillögur ríkisstjórnarflokkanna. Í umhverfisráðuneytinu eru verkefni skorin niður, sum hver ekkert um óskaplegar upphæðir en nokkrar eru þó teknar. Ég vek athygli á Náttúrufræðistofnun en til hennar áttu að fara 70 millj. kr. sem skipta miklu máli fyrir þá stofnun og eru hátt hlutfall, og ég nefni fjölmörg önnur verkefni, Umhverfisstofnun um 50 millj. kr. sem er líka tiltölulega hátt hlutfall þar. Þetta á væntanlega við verkefni sem lúta að þjóðgörðunum sem margir telja að geti orðið býsna mikilvægur liður í atvinnuuppbyggingu okkar, þ.e. þjóðgarðarnir okkar, friðlýst svæði og ferðaþjónustan.

Ég held því að þegar öllu er á botninn hvolft aukist vandinn frekar með þessum mikla niðurskurði í stað þess að reynt sé að mæta vandanum og draga úr sveiflum í efnahags- og atvinnulífinu en það hefur einkennt það sem komið hefur frá ríkisstjórninni. Við munum að sjálfsögðu, ég vænti þess að við fáum tækifæri til þess, ræða einstaka liði betur þegar þeir koma til umfjöllunar í nefndinni. Ég vil sérstaklega ítreka það sem ég hef sagt varðandi samgöngumálin. Þar er stór niðurskurðarpakki í tillögum ríkisstjórnarinnar og óhjákvæmilegt, og annað í raun óviðunandi, að það fái umfjöllun á vettvangi samgöngunefndar. Hv. formaður samgöngunefndar, hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, hafði uppi um það stór orð að hún mundi ekki una því að frumvarp til fjárlaga kæmi til 2. umr. öðruvísi en að samgöngupakkinn hefðir verið ræddur þar. Við það hefur ekki verið staðið en ég vona samt sem áður að þetta mál komi þar til umfjöllunar áður en frumvarpið verður afgreitt endanlega héðan úr þinginu sem fjárlög fyrir árið 2009 ef meiningin er að afgreiða þau á næstu dögum sem ég reikna með að stjórnarþingmenn hafi ímyndað sér að gæti orðið.

Í lokin vil ég árétta það sem komið hefur fram í máli þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs: Við teljum að hér sé um svo miklar breytingar að ræða á fjárlagafrumvarpinu að í raun sé nýtt fjárlagafrumvarp á ferðinni. Það hefði því verið eðlilegt að það hefði fengið þinglega meðferð sem slíkt, í þremur umræðum og að fjármálaráðherra hefði mælt fyrir því og fært fyrir því sín rök enda er frumvarpið frá honum komið, þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir eru komnar frá ríkisstjórninni og hafa ekki verið unnar á vettvangi fjárlaganefndar.

Ég geri ekki lítið úr því, frú forseti, að blikur eru á lofti í atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar á næstu missirum. Ég geri ekki lítið úr því að erfitt er að standa frammi fyrir því að þjóðarframleiðslan dragist jafnmikið saman og gert er ráð fyrir og spáð á næsta ári, með því tekjutapi sem það hefur í för með sér fyrir opinbera aðila. Að sjálfsögðu eru fyrstu viðbrögð manna að reyna að skera niður í rekstrinum á móti til þess að mæta þessu mikla tekjutapi og það er líka krafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að það sé gert. Það er sú aðferðafræði sem hann hefur ástundað hvarvetna þar sem hann hefur komið að málum og hefur víða gefist afspyrnuilla, haft þveröfug áhrif á við það sem til stóð. Það hefur magnað vandann sem við er að glíma í efnahags- og atvinnulífi þeirra ríkja þar sem hann hefur farið höndum um efnahagsmálin.

Því miður virðist mér allt benda til að það sama muni gerast hér. Í stað þess að við reyndum í gegnum fjárlögin að örva atvinnulífið, reyna að koma hjólum atvinnulífsins á sæmilega ferð og draga úr þeim miklu erfiðleikum og geigvænlegu áhrifum sem kreppan hefur á okkur Íslendinga á næstunni með markvissum aðgerðum til uppbyggingar, til framkvæmda í þjóðhagslega arðbærum verkefnum, til þess að draga úr atvinnuleysi — því miður er sú leið ekki farin og ég harma það að sjálfsögðu. Ég tel jafnframt að við þessar aðstæður hefði átt að taka sér góðan tíma til að leggjast yfir það í sameiningu á vettvangi Alþingis og þeirra þingnefnda sem hér starfa með hvaða hætti við komum okkur best út úr þeirri stöðu sem við erum komin í. Ekki bara með því að henda hér inn hráum breytingartillögum um blóðugan niðurskurð vítt og breitt um samfélagið heldur fara rækilega yfir það í sameiningu og ræða forsendurnar á bak við, ræða aðrar hugmyndir. Við þurfum að spyrja: Hvað gerist ef við gerum ekki þetta heldur hitt? Enginn tími hefur gefist í slíka vinnu sem þó hefði verið nauðsynlegt ef hér hefði átt að vera einhver marktæk umræða um fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár.

Við Íslendingar erum vissulega í erfiðri stöðu vegna þeirra atburða sem átt hafa sér stað að undanförnu. Mér finnst að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna hafi aðallega beint sjónum að því og vakið máls á því í málflutningi sínum að fyrst og fremst þurfi að taka á þessari stöðu og vinna sig út úr henni. Menn hafa ekki viljað kannast við ábyrgðina á því hvernig komið er eða að minnsta kosti hafa þeir reynt að vísa henni frá sér. Ég er þeirrar skoðunar — um það get ég reyndar verið sammála hæstv. utanríkisráðherra sem tjáði sig um það mál hér í andsvörum í dag — að það sé hin afleita efnahagsstjórn undanfarinna ára sem eigi stóran þátt í því hvernig komið er í íslensku þjóðarbúi. Ég get verið sammála því og þess vegna botna ég alls ekki í þeim hinum sama ráðherra að hafa leitt þá sem þannig héldu á málum til áframhaldandi valda í íslensku samfélagi.

Það er að minnsta kosti alveg ljóst í mínum huga að eins og þjóðin hefur brugðist við þeirri stöðu sem nú er uppi, með málflutningi, með mótmælum og í skoðanakönnunum, þá hefur hún gefið það sterklega til kynna að hún kunni ekki að meta þá stefnu sem hér ríkir við landstjórnina og vilji fá á henni breytingu. Þessi krafa, sem endurómar um allt samfélagið, hlýtur að hafa ratað inn í raðir stjórnarflokkanna. Menn hljóta að vera býsna hugsi yfir því í hve litlum takti þeir eru við þjóð sína sjálfa. Enda hefur það svo sem komið fram líka að forustumenn stjórnarflokkanna vita ekki alltaf hvenær þeir eru að tala við þjóðina eða hvar hún er stödd (Gripið fram í.) eða hvort það er einhver þjóð til að tala við.

Þetta er að sjálfsögðu áhyggjuefni vegna þess að þrátt fyrir allt viljum við halda því fram að við búum í lýðræðissamfélagi og í lýðræðissamfélagi þarf að hlusta á raddir þjóðarinnar og ástunda lýðræðisleg vinnubrögð, það þarf að tryggja að sjónarmiðin komi fram, að þau eigi greiða leið inn í umræður og þann vettvang þar sem ákvarðanir eru teknar. Það á m.a. við hér á Alþingi og í störfum okkar á Alþingi, ekki bara í þingsal við formlega umræðu líkt og þá sem hér fer fram heldur líka í störfum þingnefndanna. Það hefur því miður skort og ég kalla eftir því að menn standi við stóru orðin um breytt vinnulag.

Því var heitið, eins og ég hef þegar nefnt, af formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnari Svavarssyni, að vinnubrögð yrðu breytt. Forseti Alþingis boðaði það einnig þegar hann tók við sem forseti að breytt vinnubrögð yrðu í þinginu. Því miður sjáum við ekki neitt slíkt í tengslum við hið stóra mál sem nú er til umfjöllunar, sem er fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2009. Því miður sáum við ekki votta fyrir breyttum og vandaðri eða faglegri og lýðræðislegri vinnubrögðum í umræðunni um stórmál hér í haust, eins og í umræðu um fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða heimild til ríkisstjórnarinnar til að leiða til lykta ágreininginn við Breta út af Icesave-reikningunum — það er skömm að því að við skulum sitja uppi með það eins og við gerum, það er stór þáttur í því hversu erfitt er að láta enda ná saman í fjárlögum fyrir árið 2009.