136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[22:54]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er mjög líklegt að forseta sé kunnugt um þau sjónarmið sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kynnti hér fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þau eru mér hins vegar algjörlega framandi. Enginn maður í þessum sal hefur jafnmikla reynslu af því að vera í stjórnarandstöðu með VG og einmitt sá sem hér stendur. Það gerðist aldrei þegar við snerum saman bökum í viðureign við þá sem þá héldu um valdatauma að nokkur maður léti sér koma til hugar að koma í ræðustól og kvarta undan því að langt væri liðið á kvöld þegar klukkan er ekki einu sinni orðin ellefu. Við byrjuðum aldrei á því fyrr en í fyrsta lagi þegar klukkan sló tólf og við heyrðum klukkuna í Dómkirkjuturninum gjalla.

Að öðru leyti verð ég að segja, með virðingu fyrir hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að hann hefur engin málsefni til að óska eftir því að umræðum sé hætt eftir að hann hefur flutt jafnsnjalla og ögrandi ræðu og hann flutti hér áðan sem var full af staðhæfingum sem þarf að svara. Ég vænti þess að hv. þingmaður ætli ekki að meina þeim þingmönnum stjórnarliðsins, hugsanlega ráðherrum, sem óska eftir að taka hér til máls að reyna af veikum burðum að hrekja þær (Forseti hringir.) með því að reka þá heim til að sofa núna. Það væri af og frá og ekki í samræmi við virðingu hv. þingmanns fyrir málfrelsi og skoðanafrelsi. Við látum það ekki bíða (Forseti hringir.) fram á nýjan dag.