136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er fjallað um fjárveitingar til gæluverkefnisins Varnarmálastofnunar sem er sérstakt hugarfóstur hæstv. utanríkisráðherra. Hér á að vísu að draga aðeins úr fjárveitingum sem áður voru ætlaðar nokkuð ríflegar, upp á tæpa 1,5 milljarða kr., en þó aðeins um 257 millj. kr. Eftir á að standa fjárveiting upp á 1.150 millj. kr. rúmar í þessa vitleysu, í þessa þarfleysu, í útgjöld til að halda uppi heræfingum og ýmis önnur hernaðartengd verkefni og brölt sem þessi stofnun var stofnuð til að hafa með höndum, þetta nýja hermálabatterí ríkisstjórnarinnar. Þarna viljum við ganga mun lengra og Alþingi á að ákveða að leggja þessa stofnun niður. Hún er óþörf. Hún er meira að segja heldur til bölvunar og það sem hún stendur fyrir. Þess vegna vil ég koma því sérstaklega á framfæri að við áskiljum okkur rétt til þess að þessu verði þá breytt þannig við 3. umr. að eingöngu verði skildar eftir nauðsynlegar fjárveitingar til að standa straum af því að leggja stofnunina niður og greiða launakostnað sem ekki verður komist hjá í þeim efnum.