136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

virðisaukaskattur, vörugjald o.fl.

247. mál
[15:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er í sjálfu sér um einfalt mál að ræða þar sem lögð eru drög að framlengingu á undanþágum um eitt ár. Frumvarpið er þrjár greinar og í 1. gr. er lögð til framlenging á endurgreiðslu á tveimur þriðju hlutum virðisaukaskatts af kaupum á ökutækjum sem nota — hvað eigum við að kalla þetta? — óhefðbundna orkugjafa og ökutækjum sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga fyrir 18 manns og fleiri.

Í 2. gr. er fjallað sérstaklega um undanþágur á vörugjöldum vegna bifreiða sem ganga fyrir rafmagni, vetni og metani og í 3. gr. er fjallað um undanþágur frá greiðslu vörugjalda þegar um er að ræða vetnisbíla sem eru fluttir inn í rannsóknarskyni.

Í sjálfu sér, herra forseti, hef ég allt gott um þessa framlengingu á undanþágunum að segja og tel sjálfsagt og eðlilegt að viðhalda þeim, en ég gagnrýni harðlega að ekki skuli vera hægt að fá fram efnislegar breytingar á endurgreiðslu á virðisaukaskatti til strætisvagna, til almenningsvagna. Ég vil leyfa mér að vísa til þess að ég hef á undanförnum þingum flutt og flutti ásamt hv. þm. Vinstri grænna, Árna Þór Sigurðssyni, á síðasta þingi frumvarp til laga um breytingu á þessum sömu lögum sem um getur í 1. gr. frumvarpsins, þ.e. um breytingu á lögum nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Sú breyting sem ég tel nauðsynlegt að setja þarna inn — og kynni hér með að ég mun flytja breytingartillögu þess efnis — er að 3. málsliður ákvæðis til bráðabirgða X í lögunum verði felldur brott.

Herra forseti. Það sem þar um ræðir er X. ákvæði til bráðabirgða og það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að endurgreiða þeim sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum nr. 13/1999, um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum, 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2008.“ — Nú er sem sagt gerð tillaga um að framlengja það til 2009.

Síðan held ég áfram, með leyfi forseta:

„Endurgreiðsluheimildin verði bundin við hópferðabifreiðar, þ.e. ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni, sem nýskráðar eru á tímabilinu og búnar eru aflvélum samkvæmt EUROIII staðli ESB.“ — Síðan kemur þessi setning, herra forseti, sem ég tel nauðsynlegt að fella úr lögum:

„Heimildin tekur ekki til almenningsvagna. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd endurgreiðslunnar.“

Svo hljóðar þetta X. ákvæði til bráðabirgða í lögum um virðisaukaskatt, herra forseti, og með því er brotin sú jafnræðisregla sem ég tel að hljóti að verða að hafa í heiðri gagnvart hópbifreiðum, hvort heldur sem um er að ræða almenningsvagna sem má aka, nú ekki lengur eingöngu um götur borgarinnar eða götur bæja í landinu, heldur á milli sveitarfélaga og það jafnvel um langan veg. Ég vil leyfa mér að nefna Akranes, Keflavík og Árborg.

Þarna er um að ræða að allt frá árinu 2000 þegar þessi endurgreiðsluheimild var sett í lög hefur stærsta fyrirtækið á sviði almenningssamgangna, Strætós bs., keypt yfir 50 nýja bíla og hefur á þessu tímabili því borgað nær 200 millj. kr. í virðisaukaskatt. Ef Strætó bs. sæti við sama borð og önnur hópflutningafyrirtæki hefði fyrirtækið fengið endurgreiddar ríflega 100 millj. kr. af þessum greidda virðisaukaskatti.

Mjög mikilvægt er að koma þarna á jafnræði vegna þess að almenningssamgöngur eru, og verða enn frekar nú í þeim efnahagslegu þrengingum sem við nú lifum, þjóðhagslega hagkvæmar, auk þess sem þær skila miklum umhverfislegum ávinningi. Með stuðningi við almenningssamgöngur getur ríkisstjórnin sparað dýrmætan gjaldeyri við kaup á bensíni og dísilolíu til aksturs einkabíla.

Loftmengun, svifryk og sót af völdum samgangna er helsta umhverfisvandamálið hér á höfuðborgarsvæðinu enda byggjast samgöngur hér nær allar á notkun innflutts jarðefnaeldsneytis.

Því er mikilvægt að styðja bæði við þróun vistvænna orkugjafa í samgöngum, eins og gert er með þessu frumvarpi, en jafnframt er mjög nauðsynlegt að auka hlut almenningssamgangna stórlega til að draga úr þessari sömu loftmengun. Fyrsta skrefið, herra forseti, í þá átt er að tryggja að almenningssamgöngur sitji a.m.k. við sama borð og hópferðaakstur við innkaup á nýjum farartækjum til fólksflutninga. Í þeim frumvörpum sem ég hef áður flutt um þetta efni hef ég óskað eftir því að þetta væri jafnvel afturvirkt þannig að ríkissjóður mundi viðurkenna brot á jafnræðisreglu með því að endurgreiða þessum hópferðafyrirtækjum sem eru ekki bara Strætó bs. heldur verktakar, svo sem Hagvagnar hf. og líka fyrirtæki á Akureyri, Ísafirði, Fjarðabyggð, Reykjanesbæ og Akranesi, og endurgreiða allt upp í 150 millj. kr. sem ég tel að þessi fyrirtæki hafi ofgreitt í ríkissjóð af virðisaukaskatti vegna þessarar mismununar.

Ég boða sem sagt hér, herra forseti, breytingartillögu við þetta frumvarp þess efnis að 3. málsliður ákvæðis til bráðabirgða X í lögunum verði felldur brott þannig að þeir strætisvagnar, almenningsvagnar, sem yrðu keyptir til landsins á næsta ári sitji við sama borð og hópferðabílar almennt og fyrirtækin sem flytja þá inn eða kaupa fái tvo þriðju hluta virðisaukaskatts endurgreiddan.