136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[13:39]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er umræða sem hefði alveg eins getað heyrt undir fjármálaráðherra eða forsætisráðherra, en það varð úr að viðskiptaráðherra er hér til svara og vil ég sérstaklega þakka það.

Fall um 85% af bankakerfinu hafði miklar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf. Sumar voru ófyrirsjáanlegar en aðrar beinlínis afleiðingar af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin greip til í kjölfar hrunsins. Í mínum huga hafa sumar af þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar dregist allt of lengi, fyrr hefði þurft að bregðast við þeim vanda sem smærri fjármálafyrirtækin lentu í, mörg hver að ósekju. Hér á landi voru nefnilega til fjármálafyrirtæki, sparisjóðir, sem höguðu málum sínum af ráðdeild og skynsemi og geta leikið lykilhlutverk við endurreisn efnahagslífs þjóðarinnar.

Nú eru um 10 vikur frá því að veðkall Seðlabanka Íslands vegna skuldabréfa útgefinna af ríkisbönkunum komu mörgum af þessum fyrirtækjum í mikinn vanda. Hér var um stórt mál að ræða og er því miður enn. Það má í rauninni segja að sá hluti bankakerfisins sem lifði bankahrunið af hefði farið á hliðina ef frestur hefði ekki verið veittur út af þessum veðköllum.

Við framsóknarmenn óskuðum strax eftir neyðarfundi í viðskiptanefnd og málið var tekið upp og hefur svo verið frestað síðan. Þessi mikli vandi skapaðist er óvissa um endurgreiðslu frá ríkisbönkunum vegna skulda þeirra setti fjármálafyrirtækin milli steins og sleggju ríkisvalds og Seðlabanka vegna milligönguhlutverks þeirra við öflun lauss fjár fyrir viðskiptabankana frá Seðlabankanum, algjörlega með vitund hans og vilja. Reglur bankans kváðu beinlínis á um það.

Þessi lausafjárgreiðsla frá Seðlabankanum var síðan notuð til að stofna til eigna ríkisbankanna sem að einhverjum hluta voru teknar yfir í nýju bankana en skuldirnar voru skildar eftir í gömlu bönkunum. Seðlabankinn skerti síðan veðhæfi þessara skulda og krefst nú fullnustu krafna sinna á hendur fjármálafyrirtækjunum. Það er að mínu mati afar ósanngjarnt þar sem mikil óvissa ríkir um endurheimtur úr búum gömlu bankanna.

Eins og gefur að skilja er þessi vandi að miklu leyti heimatilbúinn. Það má í rauninni segja að vinstri vasi ríkissjóðs borgi ekki skuldir sínar á meðan sá hægri gengur fram af mikilli hörku við innheimtu. Það er ekki úr vegi að fá hér úr því skorið hver staðan sé í þessu máli og því beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. viðskiptaráðherra:

Hvað hefur hingað til verið gert til að höggva á þennan heimatilbúna hnút?

Hvenær kemur niðurstaða í þetta mál? Er lausn í sjónmáli? Það er afar mikilvægt að fjármálafyrirtækjunum verði veittur frestur eða að þau fái að fresta þessum veðköllum um einhvern tíma, þangað til það liggur fyrir hvað kemur úr skilanefndum gömlu bankanna þannig að það komi skýrt fram hvað komi upp í þær kröfur.

Er ekki forgangsmál að gera fjármálastofnunum landsins kleift að hjálpa til við endurreisn atvinnulífsins í stað þess að halda þeim fjármálafyrirtækjum í herkví vegna aðferða við yfirtöku gömlu bankanna?

Er ekki mikils virði að þeim hluta bankakerfisins sem lifði bankahrunið af verði gert kleift á allan mögulegan hátt að starfa áfram?

Við verðum að hafa í huga í þessari umræðu að hér var starfandi angi af fjármálakerfi þjóðarinnar, fjármálafyrirtæki sem höguðu sínum málum af mikilli ráðdeild og skynsemi, fóru hvorki út í ofurlaunapakkann né tóku þátt í hinni miklu útþenslu. Ég tel að miklir hagsmunir séu fólgnir í því að ríkið komi að því að þeim hluta fjármálakerfisins verði gert kleift að halda áfram.