136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál en vil þó gera grein fyrir því að ég hef ljáð þessu frumvarpi stuðning minn af því að ég tel að málið varði almannahagsmuni. Sá atburður þegar Bretar beittu íslensk fyrirtæki hryðjuverkalögum er einn sá ótrúlegasti í þessum efnahagsþrengingum öllum. Hryðjuverkalöggjöfin er auðvitað mjög umdeild og sértæk löggjöf í Bretlandi sem sett var á í svokölluðu stríði gegn hryðjuverkum og var líklega aldrei ætluð til nota í efnahagslegum tilgangi og hvað þá sérpólitískum tilgangi sem þessum. En leiddar hafa verið líkur að því að þessi verknaður hafi verið liður í pólitískum keilufellingum.

Björg Thorarensen, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, ræddi þetta mál í ávarpi sem hún flutti á fullveldisdeginum, þennan gjörning. Með leyfi forseta, langar mig að vitna í hana. Þar segir hún:

„Með aðgerðum breskra stjórnvalda var í raun brotið bæði gegn þjóðréttarskyldum í samskiptum við annað ríki sem er sjálfstætt skoðunarefni sem íslenska ríkið getur sótt rétt sinn vegna. Auk þess var brotið gegn réttindum íslenskra aðila sem þannig eignast kröfu á hendur breskum stjórnvöldum. Um það síðarnefnda eru afdráttarlausar skyldur leiddar af Mannréttindasáttmála Evrópu sem Bretland hefur gengist undir og jafnframt leitt í lög. Frysting á eignum og aðrar þungbærar aðgerðir sem Landsbankinn varð fyrir á grundvelli hryðjuverkalaganna brutu gegn eignarréttindum sem vernduð eru af sáttmálanum, þar sem lagastoð fyrir þeim skorti. Aldrei fyrr hefur hryðjuverkalögunum verið beitt við slíkar aðstæður og ég tel af og frá að þeim hefði verið beint að nokkru öðru ríki í Evrópu- innan eða utan ESB. En ekkert annað Evrópuríki innan Evrópusambandsins brást við til að taka undir augljós mótmæli íslenskra stjórnvalda.“

Afleiðingar þessa verknaðar eru auðvitað ekki enn komnar að fullu í ljós en þó má telja nokkuð líklegt að þetta hafi haft það í för með sér að eignir Landsbankans hafi rýrnað verulega. Þess vegna varðar þetta almannahagsmuni því að þetta er auðvitað nátengt Icesave-skuldbindingunum. Þar mun íslenska ríkið gangast í ábyrgðir að tryggja innstæður breskra sparifjáreigenda (Gripið fram í.) upp að rúmlega 20 þús. evrum sem er skuldbinding allt að 640 milljörðum sem eru auðvitað gríðarlegar skuldbindingar fyrir íslenskan almenning fram í tímann. Ljóst má vera að beiting hryðjuverkalaganna hefur rýrt eignir Landsbankans á sama tíma og þannig varðar þetta íslenska almannahagsmuni.

Af þessum orsökum lýsi ég stuðningi við þetta frumvarp og tek undir þau orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar sem hér talaði að það skiptir líka máli að þetta mál gangi hratt fyrir sig því að fresturinn til málshöfðunar rennur út 7. janúar. Hér þarf því að bregðast skjótt við því að annars gætu mjög mikilvægir hagsmunir farið forgörðum. Af þessum sökum tel ég æskilegt að Alþingi afgreiði þetta mál héðan.