136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:23]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður sem talaði á undan mér hafi ekki lesið frumvarpið. Hafi hann lesið það þá hefur hann gjörsamlega misskilið efni þess og tilgang. Hv. þingmaður talar eins og frumvarpið tryggi að farið verði í málsóknina. Svo er ekki, eins og ég skil það. Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram að meginmarkmið þess er að veita fjárhagslega fyrirgreiðslu til að standa undir kostnaði af undirbúningi og rekstri máls sem kynni að verða reist.

Ef hv. þingmaður les síðan ágæta greinargerð þeirra sem flytja málið kemur fram að flutningsmennirnir telja að fyrst og fremst þrotabúin, þ.e. leifar bankanna, muni taka ákvörðun um hvort ráðist verður í málshöfðun af því tagi sem hér er lagt til að verði studd fjárhagslega.

Í máli þeirra sem skrifa greinargerðina, þ.e. flutningsmanna, kemur fram að þeir telja líklegt að kröfuhafarnir hafi annaðhvort takmarkaðan áhuga á að fjármagna málshöfðun gegn breskum stjórnvöldum eða þá að þeir treysta sér ekki til þess af einhverjum öðrum ástæðum. Með öðrum orðum kemur fram í greinargerðinni að tvíþættar orsakir kunni að vera sem liggi til þess að ekki verði tekin ákvörðun af þrotanefndum, þ.e. skilanefndum, að fara í málshöfðun. Annars vegar er það skortur á fjármagni og hins vegar að menn telja að slík málshöfðun yrði svo vafasöm að ekki væri áhættunnar virði að leggja í þá sjóferð.

Hins vegar kemur fram sú skoðun hv. flutningsmanna að jafnvel þó að frumvarpið yrði samþykkt og þar með sú fjárhagslega fyrirgreiðsla sem því fylgdi tryggi það ekki að í slíka málshöfðun verði farið. Ég tel þess vegna að hv. þm. Grétar Mar Jónsson hafi algerlega misskilið tilganginn með frumvarpinu. Ef hv. þingmaður vill koma hingað og fimbulfamba um að ekki sé verið að ráðast í málshöfðun, ef hann vill tryggja að þingið leggi sinn atbeina að því að í gadda sé slegið, þá verða hann og Frjálslyndi flokkurinn að leggja fram frumvarp þar sem Alþingi samþykkir að fela ríkisstjórninni að ráðast í slíka málshöfðun. Það er ekki gert hér.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kom hingað og fór með orðasveim og sagði orðróm vera um að ríkisstjórnin hefði ekki áhuga á því að réttar Íslendinga í málinu yrði með einhverjum hætti leitað fyrir dómstólum. Það er alrangt. Margsinnis hefur komið fram bæði frá forustumönnum beggja stjórnarflokkanna og mörgum ráðherrum og mörgum þingmönnum úr öllum flokkum að mjög einbeittur vilji er fyrir því að Íslendingar taki sér allt það fyrir hendur sem hægt er til að tryggja þennan rétt.

Ég rifja það upp að í nefndaráliti, ég held allrar eða meiri hluta utanríkismálanefndar sem hv. þm. Bjarni Benediktsson mælti hér fyrir á sínum tíma og varðaði Icesave-reikningana og ákveðna hluti sem þeim tengdust, er skýrt tekið fram að íslensk stjórnvöld áskilji sér allan rétt þrátt fyrir þá samninga sem kunna að vera gerðir að sækja þann rétt sem þau telja að þeim beri fyrir dómstólum. Það er algerlega klárt. Ljóst er að til þess liggur skýr vilji íslensku ríkisstjórnarinnar.

Ég held að rétt sé hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni 1. flutningsmanni og hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að vel kunni að vera að það sé málinu og þeirri glímu sem við eigum eftir að heyja við Breta út af þessu máli til styrktar að fyrir liggi óskoruð yfirlýsing Alþingis. Hennar má afla með ýmsum hætti. Vel hugsanlegt er að ef það er það sem menn leita eftir, eins og mér fannst vera hér ríkjandi í máli hv. þingmanns sem talaði næstur á undan mér, þá hefðu menn hugsanlega getað farið þá leið að Alþingi samþykkti ákveðna yfirlýsingu um afstöðu í málinu.

Ég vil hins vegar segja, eins og ég hef margsinnis sagt úr þessum ræðustól, að ég tel að Bretar hafi komið svívirðilega fram gagnvart okkur á sínum tíma. Ég tel að engin ástæða og engin rök hafi verið til þess að þeir gripu til notkunar hermdarverkalaganna. Ég held raunar varðandi Singer & Friedlander banka Kaupþings að þá eigi eftir að koma í ljós að sá banki stóð með þeim hætti að bresk stjórnvöld höfðu enga ástæðu til að telja að með einhverjum hætti væri hag breskra borgara fjárhagslegur háski búinn. Ég held að það sé algerlega klárt.

Enginn hefur getað sýnt fram á hvaða rök lágu til grundvallar því að Bretar fóru inn í og lokuðu þeim banka Kaupþings. Það olli hruni Kaupþings og hafði í för með sér ómældan skaða fyrir eigendur Kaupþings og marga þá sem telja má í hópi lánardrottna þess ágæta banka. Þannig að út af fyrir sig er það sérstakt rannsóknarefni að reyna að grafast fyrir um hvað olli þessu.

Ég held, til að taka undir það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði í upphafsræðu sinni, að þetta hafi fyrst og fremst verið viðleitni forsætisráðherra sem var í veikri stöðu í breska ríkinu til að slá pólitískar keilur. Sá sem hér stendur bjó í Bretlandi á tímum Falklandseyjastríðsins. Ég sá þá hvernig breskur forsætisráðherra sem stóð í harðri vörn og átti undir högg að sækja notaði milliríkjadeilu sem tengdist átökum um yfirráð Falklandseyja til þess að snúa almenningsálitinu sér í vil.

Lítill vafi er í mínum huga um að Gordon Brown forsætisráðherra Breta fór sömu leið. Það sést glöggt þegar yfirlýsingar hans eru skoðaðar, þar sem hann talaði m.a. af lítilli kunnáttu og litlu viti og engri fyrirhyggju um að bresk stjórnvöld mundu leggja undir sig íslensk fyrirtæki, eins og hann orðaði það, í Bretlandi. Það sýndi bara í hvað var stefnt þarna. Þarna átti að sópa breskum almenningi undir vængi stjórnmálamanns í erfiðleikum. Þetta er gamalt trix sem menn kunna að nota þar í landi og þetta gekk að hluta til um stund hjá þeim manni.

Að því er varðar síðan Landsbankann og beitingu hermdarverkalaganna gagnvart honum er ég litlu nær hvað raunverulega olli því. Ekkert sem komið hefur fram af hálfu íslenskra stjórnmálamanna í bréfum eða í samtölum, sem hafa verið birt, gefur tilefni til þess. Enginn hefur heldur haldið því fram ef frá eru taldir tveir einstaklingar. Hinn fyrri er talsmaður Framsóknarflokksins í utanríkismálum sem skrifaði um það mál í áliti Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd, sem ég vísaði til hér áðan, að tiltekið samtal sem þar er tilgreint hefði leitt til þess og samskipti íslenskra stjórnmálamanna, þ.e. ráðherra, við Breta hefðu gefið tilefni til þess að Bretar fóru fram með þessum hætti. Ekkert hefur verið lagt fram sem rökstyður það. Þar að auki tel ég mjög gáleysislegt af íslenskum stjórnmálamönnum að tala með þessum hætti án þess að geta rökstutt mál sitt vegna þess að það beinlínis grefur undan þeim hagsmunum sem t.d. hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson reifaði hér sem eitt af markmiðum þessa frumvarps væri að verja.

Annar Íslendingur hefur líka talað með þessum hætti og það er aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands. Þegar hann hélt ræðu sína á viðskiptaþingi og sagði að honum væri kunnugt um óbirt samtöl sem gæfu tilefni til þess að ætla að þar lægi ástæðan fyrir því að bresk stjórnvöld gripu til þessara viðbragða þá tel ég að seðlabankastjórinn hafi þar gáleysislega mælt og án þess að geta lagt fram frekari rök máli sínu til stuðnings hafi hann líka grafið undan málstað Íslendinga. Með því var hann í reynd að greina frá því að hann sem seðlabankastjóri byggi yfir vitneskju sem gæfi tilefni til þess að réttlæta þessa misgjörð breskra stjórnvalda.

Þetta vildi ég nú sagt hafa hér í ræðu minni um þetta mál, herra forseti. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að ágætt sé að Alþingi Íslendinga ítreki þann sterka vilja sem fram hefur komið frá þeim sem hér sitja og ríkisstjórn Íslands um að Íslendingar neyti þeirra ráða sem þeir hafa til að leita réttar síns.

En ég segi hins vegar alveg fortakslaust að ég tel að jafnvel samþykkt þessa frumvarps muni ekki endilega tryggja að farið verði í slíka málsókn af hálfu skilanefndar að minnsta kosti annars þessara banka. Skýrt kemur fram að það er álit þeirra sem flytja málið að einhverjar aðrar ástæður en fjárhagslegar kunni að leiða til þess að þeir treysti sér ekki til þess. Nú ætla ég ekki að rekja garnirnar úr hv. flutningsmönnum frumvarpsins um hvað það kunni að vera. En þetta vildi ég segja í tilefni af orðum Grétars Mars Jónssonar hér áðan.

Ég vil ítreka það, herra forseti, að ég tel að þarna hafi Bretar farið með miklu harðræði, mikilli ósanngirni og ranglæti á hendur Íslendingum og ég tel að þetta mál og framkoma þeirra gagnvart okkur muni verða þeim til ævarandi hneisu.