136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[23:29]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa fleiri orð um makalífeyri. Ég vil þó segja að menn eiga að líta á kjör alþingismanna í heild sinni. Ef gengið er til þess verks að breyta eftirlaunaréttindum, sem menn geta auðvitað gert, og þau færð verulega niður eins og hér er lagt til hljóta menn að ætla að taka mið af þeirri breytingu þegar launin sjálf eru ákvörðuð. Það hlýtur að leiða til þess að kjararáð endurmetur laun alþingismanna þegar það ber þau saman við viðmiðunarhópana því að í þessum samanburði hlýtur kjararáð að hafa tekið hliðsjón af lífeyrisréttindunum eins og þau hafa verið. Ef þau eru skert hlýtur það að leiða til þess í samanburðinum að það þurfi að hækka launin. Ég skil þessi lög um kjararáð þannig og starf þess á þá lund að það hljóti að gerast. Annað væri líka óeðlilegt. Það er óeðlilegt, virðulegur forseti, að laun alþingismanna skuli vera mun lægri en laun skrifstofustjóra hjá ríkinu. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í dag munu laun skrifstofustjóra hjá ríkinu vera um 600 þús. og að jafnaði hafa þeir 15 til 20 einingar ofan á það þannig að heildarlaunin eru um 680–750 þús.

Nú þegar lífeyrisréttindi verða eins erum við að bera saman annars vegar 560 þús. fyrir að vera alþingismaður og hins vegar allt upp í 750 þús. fyrir að vera skrifstofustjóri. Það bara gengur ekki, virðulegur forseti, mér finnst bara að við getum ekki litið á starf okkar hér í þinginu þannig að þetta séu eðlileg hlutföll launa á milli þessara tveggja ágætu starfsstétta ríkisins.