136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[11:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það sem ég gagnrýni og leyfði mér að gagnrýna áðan er að stefnumörkun vantar varðandi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ólíðandi er að mínu viti að ár eftir ár og mánuð eftir mánuð og missiri eftir missiri sé vísað til þess að einhver nefnd sé að störfum, lokuð nefnd á vegum hæstv. heilbrigðisráðherra sem ekkert kemur frá og nú er vísað fram í janúar með það.

Auðvitað er þetta bara leyndarnefnd og ekkert annað þegar ekkert heyrist frá henni. Ég kalla eftir því að fleiri komi að því borði vegna þess að upplýst er að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins vinnur ekkert með þessari nefnd, nefndin kallar einstaka starfsmenn fyrir og búið. Það skortir algjörlega stefnumörkun og samráð.

Ég leyfði mér að vekja athygli á því að á bls. 123 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2008 kemur fram að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins á þar að fá 3.691 millj. kr., tæpa 3,7 milljarða kr. Hún fékk á þessu ári samkvæmt fjárlögum 4,2 milljarða en í fjárlagafrumvarpinu í haust var fyrirhugað að hún fengi 4,7 milljarða og þar munar 22%. Hér hefur verið bent á að þar sé um að ræða millifærslur yfir til heimahjúkrunar, en ekki kemur fram á þessum stað í frumvarpinu nákvæmlega hverjar fjárhæðirnar eru en við munum væntanlega fá tækifæri til þess að ræða það síðar í dag.

Eftir stendur, herra forseti, að heilsugæslan er olnbogabarn þessarar ríkisstjórnar og ég óttast að niðurskurðurinn sem hér blasir við muni verða notaður til þess að búta hana enn þá meira niður og henda henni út á markaðinn eins og stefna hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið, (Forseti hringir.) að koma öllu sem hægt er í heilbrigðisþjónustunni í hendur einkaaðila og það er miður.