136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[11:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að beina orðum mínum til hv. 6. þm. Suðvest., Ögmundar Jónassonar. Það er æðioft sem (Gripið fram í.) — hæstv. forseti, í gegnum hæstv. forseta á að gera slíkt. (Gripið fram í.) Það er ansi algengt að þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson mætir því að fólk er honum ekki sammála þá er hans leið að skensa fólk, tala niður til þess og skensa það.

Ég var ekki hér sem þingmaður að verja lífeyrisréttindi þingmanna, ég orðaði þau ekki að öðru leyti en því að ég spurði hvort hv. þingmaður væri reiðubúinn að breyta lögum opinberra starfsmanna og lífeyrisréttindum þeirra til jafns á við það sem gilti á hinum almenna markaði og hvort hann væri reiðubúinn til að veita þingmönnum og öðrum valfrelsi til að greiða í lífeyrissjóð.

Ég er ekki varðhundur neins kerfis hér og ég vil gjarnan hafa það frelsi að geta valið þann lífeyrissjóð sem ég greiði í. Ég hef hins vegar sinnt þeim störfum fram til þessa að vera í forréttindahópi þeirra sem greiða í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Það eru forréttindi umfram almenna launamenn í landinu. Ég frábið mér að ég standi hér sem varðhundur einhvers kerfis vegna þess að ég er það ekki. Ég er ekki hlynnt þeim forréttindum sem eftirlaunafrumvarpið frá 2002–2003 gaf þingmönnum og ráðherrum. Mér fannst það þá og finnst það enn fyrir neðan allar hellur og er ekki að verja það, þannig að það sé (Forseti hringir.) algjörlega skýrt, herra forseti.