136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[12:41]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Víða er skorið niður, ég fel það ekkert. Hins vegar var ákveðið að vernda lægsta hópinn. Við hækkum bætur úr 150 þús. kr. í 180 þús. kr. Þetta er umtalsverð hækkun og þetta er hópurinn sem við erum að vernda. Við þurfum að forgangsraða, víða er skorið niður, í velferðarkerfinu, í menntakerfinu, víða á þeim stöðum sem við vildum ekki skera niður en við stöndum frammi fyrir 175 milljarða kr. halla á ríkissjóði og ábyrgðarlaust er að vísa þeim halla á framtíðina.

Hv. þingmaður stærði sig af því að kostnaðarhlutdeild sjúklinga væri svo lág eftir valdatíð Framsóknarflokksins. Hún jókst reyndar til muna á þeim tíma, (Gripið fram í.) hún jókst miklu meira en við það sem við gerum. Þetta er hægt að sjá í OECD-skýrslu.

Hv. þingmaður hefur líka orð á að hægt sé að gera ýmislegt sem ekki var hægt þegar Framsóknarflokkurinn var með heilbrigðismálin. Já, ýmislegt er hægt að gera, t.d. leysa fráflæðisvanda á LSH sem við höfum gert. Í tíð Framsóknarflokksins var fólk sem var látið búa á spítalanum í allt að ár. Hægt var að semja við hjartalækna, það gerðum við, en þegar Framsóknarflokkurinn var sögðu hjartalæknar sig af samningi. Hægt var að flytja heimahjúkrun til Reykjavíkurborgar, það gerðum við en Framsóknarflokknum ekki þegar hann réð heilbrigðismálum. Við höfum stytt biðlista til muna og það hefur landlæknir staðfest. Það var ekki hægt þegar Framsóknarflokkurinn réð heilbrigðismálum.

Já, það er því rétt hjá hv. þingmanni að ýmislegt er hægt að gera með Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn þegar kemur að heilbrigðismálum.

Kjarni máls míns varðandi komugjöldin er að auðvitað er ekki skemmtileg aðgerð að hækka þau eða setja þau á en það hefur verið sá veruleiki sem blasir við, við förum hóflega í þetta. (Forseti hringir.) Við minnum á að sjúklingar á Landspítalanum greiða nú þegar ýmis gjöld, en í meðförum nefndarinnar var metið að sjúklingar á spítalanum greiddu nú allt að tveimur milljörðum (Forseti hringir.) í sjúklingagjöld, þannig að (Forseti hringir.) ekki er rétt eins og hefur heyrst í umræðunni að menn brjóti eitthvert blað (Forseti hringir.) þegar kemur að gjaldtöku á sjúklingum. (Forseti hringir.) En við tökum aldraða og öryrkja út fyrir sviga. (Forseti hringir.)