136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það gætu verið ýmsar félagslega betri leiðir til þess að fara inn í búvörusamninginn ef menn vildu opna á það en flöt skerðing beingreiðslnanna með því að láta þær ekki fylgja verðlagsþróun. Við skulum t.d. átta okkur á því að bústærðin er mjög ólík.

Ég var alltaf hallur undir þau sjónarmið á sínum tíma að fara frekar leið skyldari því sem t.d. Norðmenn, Kanadamenn og fleiri fleiri þjóðir fara varðandi stuðning sinn að hann fer fallandi með bústærð ofan við ákveðin mörk. Þannig náum við betur til einyrkjanna, náum upp að þeim mörkum þar sem myndast ein árslaun á búinu. Það er tilfinnanlegast að skerða beingreiðslu hjá bónda sem hefur engar aðrar tekjur og er rétt við þessi mörk með meðalbústærð, t.d. í sauðfjárrækt. Það er spurning hvort t.d. stærstu búin þyldu ekki frekar að eitthvað drægi úr beingreiðslunum hjá þeim. (Gripið fram í.) Það gætu vissulega verið þau skuldsettari, alveg hárrétt, hæstv. landbúnaðarráðherra, þannig að allt er þetta nú erfitt.

Þá komum við aftur að verðtryggingunni. Ég tel ekki að neinn hafi verið að tala um það og við höfum ekki verið að skoða það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að fara inn í verðtryggingargrunninn almennt. Það sem verið hefur til skoðunar eru verðtryggð húsnæðislán og hvort þar sé hægt að koma til móts við fólk vegna þess að það er auðvitað tilfinnanlegast af öllu ef fólk missir ofan af sér húsnæðið.

Þar eru aðallega tvö tæki. Það væri að fara í þetta sameiginlega með Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðunum og ríkissjóði að taka einhvern verðbólgukúf ofan af eða hækka umtalsvert vaxtabætur. Hvorugt á að gera. Þvert á móti verða vaxtabæturnar samkvæmt þessu frumvarpi í raun skertar og barnabætur líka því að þær eiga ekki að taka á sig nema 5,7% verðlagshækkun sem dugar hvergi nærri til. Það er sama skerðingarprósentan og gagnvart bændum.