136. löggjafarþing — 65. fundur,  20. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[17:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Núna þegar við göngum til lokaumræðu og atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp til laga um fjárhagslega fyrirgreiðslu úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum vil ég nota tækifærið og þakka hæstv. forseta Alþingis fyrir að taka þetta mál til umræðu hér til þess að það komist til lokaafgreiðslu.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka þingmönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi fyrir að styðja þetta mikilvæga mál og greiða fyrir því að það hljóti afgreiðslu. Það sýnir að þverpólitísk samstaða er um að íslenska ríkið og ríkisvaldið sé reiðubúið til þess að standa við bakið á þeim sem vilja höfða mál gegn breskum stjórnvöldum vegna aðgerða þeirra gegn Íslendingum og íslenskum hagsmunum í upphafi októbermánaðar.

Í samþykkt þessa frumvarps felast líka mikil pólitísk tíðindi, þ.e. yfirlýsing frá Alþingi Íslands um að Alþingi sættir sig ekki við að bresk stjórnvöld beiti Íslendinga og íslenska hagsmuni hryðjuverkalögum. Íslendingar eru ekki hryðjuverkamenn og munu ekki sætta sig við að vera meðhöndlaðir sem slíkir.