136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[17:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aftur þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir þessi svör og taka undir með honum þegar hann spyr: Hvar annars staðar eru úrræði sem sjálfseignarstofnanir og félagasamtök hafa haldið uppi í heilbrigðisþjónustunni okkar árum og áratugum saman? SÁÁ er eitt dæmi en dæmin eru mýmörg og vil ég minna á Reykjalund og Hrafnistu.

Ég skil það svo að vænta megi stuðnings hv. formanns fjárlaganefndar við breytt vinnubrögð gagnvart þessum samningi og að samkomulag við SÁÁ þar um verði endurunnið.

En varðandi núllstillinguna á halanum, fyrst búið er að leggja út í þennan kostnað eins og hv. þingmaður segir — þegar greiðslan hefur faktískt verið innt af hendi og þetta er ekki annað en bókhaldstala, að vísu er verið að flytja til fjármuni til þess að slétta hana út — þá held ég að það hljóti að vera skynsamlegra að stíga skrefið til fulls og auðvelda þessum stofnunum að fara inn í þann mikla niðurskurð sem er fram undan. Þess vegna hefði átt að klippa þennan hala algerlega af.

Ekki hefði munað, samkvæmt mínum útreikningum, nema kannski einum og hálfum milljarði. Einn og hálfur milljarður í hallanum sem við erum að tala um núna skiptir ekki sköpum, það liggur við að það sé innan skekkjumarka.