136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

krafa um kosningar.

[13:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Að það sé nauðsynlegt að draga úr þörfinni fyrir erlent lánsfjármagn — það er okkar krafa. Það er krafa fólksins sem er að mótmæla ekki bara hér við Alþingishúsið heldur um allt land.

Gera menn sér grein fyrir því að eitt prósentustig til eða frá af Icesave-lánunum sem ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra er að makka um á bak við tjöldin jafngildir þeim niðurskurði sem nú bitnar á heilbrigðiskerfinu í landinu, jafngildir rekstrarkostnaði Háskóla Íslands á heilu ári? Og þetta er ríkisstjórnin að makka um á bak við tjöldin. Staðreyndin er sú að hún þorir ekki að standa á rétti þjóðarinnar gagnvart erlendu kúgunarvaldi.

Hæstv. forseti. Það sem þarf að gera er:

1. Það þarf að hreinsa út úr valdastofnunum landsins. (Forseti hringir.)

2. Það þarf að opna á upplýsingar — allt undan leyndarhjúpi.

3. Það þarf að kalla til aðstoðar erlenda sérfræðinga eins og (Forseti hringir.) stungið hefur verið upp á.

4. Það þarf að koma tafarlaust til liðs við fólk sem er að missa eignir sínar í þessum töluðu orðum.

5. Framar öllu öðru þarf það fólk að fara frá (Forseti hringir.) sem klúðrað hefur málum okkar eins herfilega og raun ber vitni og þjóðin þarf að fá tækifæri til að kjósa nýtt þing með raunverulegt umboð. (Forseti hringir.)

Þessi ríkisstjórn hefur sýnt (Forseti hringir.) sig vanhæfa að gæta hagsmuna Íslendinga. (Forseti hringir.) Hún á að fara frá og það á að efna til lýðræðislegra kosninga í landinu. (Forseti hringir.) Og þegar forsætisráðherra þjóðarinnar óskar eftir því að fá frið (Forseti hringir.) fyrir lýðræðinu, frið (Forseti hringir.) fyrir fólkinu, frið fyrir þjóðinni þá er illa komið. Slík ríkisstjórn á að sjá sóma sinn í að segja af sér (Forseti hringir.) og efna til kosninga í landinu og virða þannig lýðræði og mannréttindi.