136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:17]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka þær ágætu umræður sem hér hafa staðið í rúmlega tvo og hálfan tíma. Hér hefur margt borið á góma og margt athyglisvert verið sagt. Ég vil t.d. þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir hans ágætu ræðu hér og einnig þeim síðustu ræðumönnum sem hér töluðu, hv. þingmönnum Magnúsi Stefánssyni og Jóni Magnússyni. Því miður gat ég ekki hlustað á alla umræðuna.

Það er hárrétt sem fram kom í máli síðasta ræðumanns, að það má ekki hlífa neinum eða nokkru í rannsókn á afbrotum sem hugsanlega kunna að koma upp úr kafinu þegar þau mál verða brotin til mergjar. Búið er að setja þau mál í þann farveg að það á að vera hægt að treysta því að allt slíkt verði rannsakað til hlítar og þá bera menn þá ábyrgð sem lög kveða á um.

Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að ástandið í heiminum er ruglingslegt, það er ekki eins og allir geri sér almennilega grein fyrir því. Royal Bank of Scotland, þessi stóri banki í Bretlandi, tapaði 5.500 milljörðum ísl. kr. á einum ársfjórðungi að því er fram kom í uppgjöri hans fyrir örfáum dögum. Það eru því ótrúlegir hlutir að gerast víða um heim og öll höfum við fylgst með því hvernig hinn nýi Bandaríkjaforseti hyggst reyna að blása lífi í bandarískt efnahagslíf með miklum örvunaraðgerðum sem kosta ríkissjóð þar í landi stórkostlega fjármuni en það er talið réttlætanlegt vegna þess að tjónið verði ella mun meira. Vandinn hér á landi er vissulega mikill en hann er mikill hjá mörgum fleirum.

Ég vil svara ákveðinni spurningu sem hv. þm. Magnús Stefánsson beindi til mín því að hún skiptir miklu máli. Hann spurði: Eru innstæðurnar í nýju ríkisbönkunum tryggðar? Svarið við því er afdráttarlaust já. Það hefur ekkert breyst í þeim efnum frá því að við lýstum því yfir í haust. Það er mjög mikilvægt að það sé ekki neinn vafi í því efni og allar sögusagnir um að eitthvað óeðlilegt sé að gerast varðandi þau mál eru fráleitar og enginn af þeim bönkum er að falla eða neitt slíkt.

Hv. þingmaður nefndi einnig upplýsingamiðlun til almennings. Ég geri ráð fyrir því að gagnrýna megi ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki staðið nægilega vel að þeim málum. Allt það sem ég fór með hér í minni ræðu, þessi 40 atriði eða svo, hafa löngu komið fram, þetta hefur verið rætt í þinginu, margt af þessu voru þingmál. Þetta er allt samandregið á vefsíðu sem heitir island.is en samt sem áður er ljóst að ýmsir hafa ekki gert sér grein fyrir því að þetta eru mjög aðgengilegar upplýsingar en það þarf að gera betur í þessum efnum.

Hér hefur mikið verið talað um skuldir ríkissjóðs í kjölfar bankahrunsins, þær verða vissulega miklar. Þær eru misjafnlega alvarlegar. Fjármunirnir sem við leggjum inn í Seðlabankann eða notum til að endurfjármagna bankana eru minna vandamál en þær erlendu skuldir sem við þurfum að taka á okkur. Minnsta vandamálið er þar en meira vandamál er að sjálfsögðu erlendu skuldirnar og þess vegna verðum við að gera allt sem hægt er til að lágmarka þær og til að koma hlutum þannig fyrir að við þurfum ekki að nota þau lán sem við fáum frá nágrannaþjóðum og frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nema þá við ýtrustu erfiðleika.

Ég tel að það sé hárrétt sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði að við erum ekki að taka á okkur meiri skuldir en við munum fá undir risið en eigi að síður verður að gera allt sem hægt er til þess að lágmarka þann reikning. Það er hins vegar þannig, og það hefur komið fram hjá mörgum ræðumönnum hér, að þrátt fyrir að næstu ár verði okkur Íslendingum erfið efnahagslega eru framtíðarhorfurnar mjög bjartar. Margir hafa vikið að því, t.d. hæstv. iðnaðarráðherra, og þess vegna höfum við alla burði hér til að endurreisa íslenskt efnahagslíf þrátt fyrir erfiðleika. Sú efnahagsáætlun sem við erum að vinna eftir, og sem ég rakti ítarlega í upphafsræðu minni, miðar að því að endurreisa efnahagslífið og það mun takast, ég er ekki í nokkrum einasta vafa um það. Við munum, Íslendingar, sýna af okkur þá þrautseigju og þann dug sem þarf til þess að koma málum heilum í höfn þó að það muni taka einhvern tíma og verða erfitt meðan á því stendur.