136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[20:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur tekið við stjórnartaumunum á miklum umbrotatímum í íslensku samfélagi. Öllum var orðið ljóst að fyrri ríkisstjórn var óstarfhæf. Nauðsynlega forustu skorti og lítið var um aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja. Ef eitthvað á að segja til að lýsa þeirri ríkisstjórn var hún haldin ákvarðanatökufælni í mjög mörgum mikilvægum málefnum fyrir íslenska þjóð. Viðbrögð almennings við ládeyðunni voru þau að krefjast kosninga, krefjast breytinga á yfirstjórn Seðlabankans, krefjast breytinga á yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins svo fátt eitt sé nefnt.

Á nýafstöðnu flokksþingi okkar framsóknarmanna kom þessi skýra krafa almennings um breytingar berlega í ljós. Um eitt þúsund manns komu þar saman og kusu sér nýjan formann, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem hefur slegið nýjan tón í stjórnmálaumræðunni, talað um lausnir vegna vanda heimila og fyrirtækja frekar en að vera fastur í kreddustjórnmálum sem við þurfum að segja skilið við. Mikill fjöldi fólks hefur gengið til liðs við Framsóknarflokkinn í kjölfarið, fólk sem vill breytingar á íslensku samfélagi, fólk sem vill hafa áhrif.

Eins og áður sagði var fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar óstarfhæf. Misvísandi stefnur flokkanna í mörgum grundvallaratriðum urðu til þess að lítið var um aðgerðir og sjálfstæðismenn virtust helst hafa þann metnað að halda í valdastólana þannig að Valhöll gæti áfram verið þrettánda ráðuneytið í ríkisstjórn þeirra. Fráhvarfseinkenni flokksins hafa verið gríðarleg síðan stjórnarskiptin urðu og heyrðist það síðast í umræðunni á Alþingi í dag, enda hefur flokkurinn verið við völd samfellt í 18 ár og mun þurfa sinn tíma til að fóta sig í stjórnarandstöðunni. Það er í raun og veru merkilegt, hæstv. forseti, að hugsa til þess að þeir sem fá að kjósa í fyrsta sinn í vor hafa margir hverjir ekki upplifað íslenskt samfélag án þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé í ríkisstjórn. Heil kynslóð Íslendinga hefur ekki kynnst Íslandi án þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé þar við völd.

Góðir Íslendingar. Breytinga var þörf og breytinga er þörf á fleiri sviðum. Í ljósi þess að við bjuggum við ríkisstjórn sem kom sér varla saman um nokkurn skapaðan hlut buðum við í Framsóknarflokknum Samfylkingunni og Vinstri grænum að verja minnihlutastjórn þeirra vantrausti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði sem við framsóknarmenn settum voru þau að alþingiskosningar yrðu eigi síðar en 25. apríl og nú hefur sá kjördagur verið ákveðinn. Í öðru lagi lögðum við áherslu á að hafin yrði vinna að undirbúningi stjórnlagaþings þar sem almenningur kæmi að því að semja stjórnarskrá lýðveldisins. Út frá þeim grunni verður byggt upp nýtt samfélag þar sem von mín er sú að réttlæti og valddreifing verði meginstefið.

Í þriðja lagi vildum við framsóknarmenn sjá raunverulegar aðgerðir í þágu heimilanna í landinu. Í fjórða lagi vildum við sjá raunverulegar aðgerðir í þágu atvinnulífsins í landinu. Í fimmta lagi vildum við sjá að mótuð yrði stefna í gjaldmiðilsmálum til framtíðar en þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn á undanförnum árum ekki viljað aðhafast neitt og neitað að horfast í augu við raunveruleikann. Ástandið er með þeim hætti að við getum ekki búið við stjórnvöld sem humma hlutina fram af sér og láta aðgerðaleysið eitt ráða för. Kyrrstöðuna þurfti að rjúfa.

Það heyrir til undantekninga hér á landi að minnihlutastjórn sé að störfum en við slíkar breytingar þarf framkvæmdarvaldið í auknum mæli að leita til þingsins í ákvarðanatöku sinni og það er ólíkt því sem tíðkaðist hjá síðustu ríkisstjórn. Starf hennar einkenndist af því að við þingmenn heyrðum í fjölmiðlum hvað ríkisstjórnin hafði ákvarðað að þingið mundi afgreiða. Ég minni á að Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn og það er framkvæmdarvaldið sem á að fylgja eftir þeim málum sem Alþingi Íslendinga ákveður. Það skal viðurkennt að ráðherraræðið sem viðgengist hefur á undanförnum árum hefur verið með þeim hætti að okkur er lítill sómi að.

Ný ríkisstjórn tekur við erfiðu búi, margar erfiðar og vandasamar ákvarðanir þarf að taka og eru fram undan í hagstjórninni og það er enginn öfundsverður af því að fara með stjórn mála. Ég óska nýkjörnum forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, góðs gengis við verkstjórnina og nýrri ríkisstjórn líka. Ég vil segja það hér að Framsóknarflokkurinn mun veita góðum málum brautargengi á Alþingi Íslendinga sama hvort þau koma frá stjórn eða stjórnarandstöðu.

Við myndun núverandi ríkisstjórnar var mikið rætt um hvers vegna framsóknarmenn vildu fá tíma til að meta stuðning sinn við slíka minnihlutastjórn og margar sögur hafa verið á kreiki. Sannleikurinn er sá að þar var ekki verið að karpa um stóla eða bitlinga heldur um málefni og aðgerðir, um að þessi ríkisstjórn mundi í störfum sínum skapa betra Ísland. Að því vill Framsóknarflokkurinn stefna.

Góðir landsmenn. Eitt okkar brýnasta mál er að hið fyrsta verði komið til móts við skuldug heimili þar sem greiðslubyrði lána hefur margfaldast einungis á nokkrum mánuðum. Lækka þarf stýrivexti Seðlabankans, heimilin bera einfaldlega ekki hæstu stýrivexti í heimi. Það hlýtur að vera forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar að hefja vaxtalækkunarferli og þeirrar ríkisstjórnar sem taka mun við eftir næstu kosningar að fylgja því ferli á enda. Við þetta verður ekki búið.

Mörg brýn mál þarf að afgreiða frá Alþingi á mjög stuttum tíma. Við framsóknarmenn höfum m.a. lagt fram frumvarp um greiðsluaðlögun sem ný ríkisstjórn hefur gert einnig. Þessar aðgerðir munu bæta hag heimilanna verulega. Fólk verður að sjá fram úr þeim vandamálum sem við blasa og stjórnvöld og ný ríkisstjórn verða að koma fram með trúverðugum hætti og sýna fram á hvernig við ætlum að takast á við þær gríðarlegu skuldir sem blasa við þjóðarbúinu og heimilunum í landinu.

Eitt mesta böl sem nokkur maður getur búið við er atvinnuleysi. Ríflega 13 þúsund Íslendingar ganga nú atvinnulausir og talið er að í maímánuði næsta verði um 20 þúsund Íslendingar atvinnulausir. Þegar 20 þúsund Íslendingar eru án atvinnu snertir það hvert einasta heimili í landinu. Við þessu þarf að bregðast með öflugri atvinnustefnu og þar vil ég endurtaka það sem ég hef sagt að ekki má leggja stein í götu verkefna sem geta skapað þjóðarbúinu gjaldeyri og fjölda starfa. Við þurfum nú sem aldrei fyrr að auka verðmætasköpun í samfélaginu, við þurfum að fá inn erlenda fjárfestingu og við þurfum nauðsynlega að fjölga störfum í vaxandi atvinnuleysi.

Frumskilyrði þess að íslenskt atvinnulíf vaxi og dafni er að bankakerfinu verði komið í starfhæft form á ný þannig að lífvænleg fyrirtæki fái aðgengi að ódýru lánsfé. Við vitum að mörg fyrirtæki eiga í greiðsluerfiðleikum, mörg fyrirtæki eiga í erfiðleikum með að greiða starfsfólki sínu laun eða standa skil á opinberum gjöldum. Við þetta verður ekki búið. Það er því forgangsverkefni að gerður verði efnahagsreikningur fyrir ríkisbankana. Þeir munu ekki geta starfað eðlilega án þess að vitað sé hverjar eru eignir þeirra og skuldir. Jafnframt er brýnt að semja við eigendur jöklabréfa sem er forsenda þess að ná fram eðlilegri verðmyndun á íslensku krónunni og leysa þannig fyrirliggjandi vanda í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Við þurfum að huga sérstaklega að stöðu sparisjóðanna í því umhverfi sem við búum við í dag. Þeir munu gegna lykilhlutverki við endurreisn fjármálakerfisins. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það samfélagslega hlutverk sem þeir hafa gegnt um áratugaskeið. Viðreisn fjármálakerfisins þarf að byggjast í auknum mæli á samfélagslegum forsendum en ekki á forsendum blindrar frjálshyggju og græðgi. Svo á einnig við um aðrar atvinnugreinar.

Íslenskur landbúnaður hefur aldeilis sannað gildi sitt á þessum síðustu og verstu tímum. Nauðsynlegt er að bregðast við rekstrarvanda landbúnaðarins og fylgja góðar kveðjur frá okkur framsóknarmönnum til hæstv. landbúnaðarráðherra um að beita sér í þeim efnum. Með því að efla innlenda matvælaframleiðslu sköpum við störf og við komum í veg fyrir útstreymi gjaldeyris. Við viðhöldum blómlegri byggð í landinu okkar og stuðlum að ákveðnu öryggi sem felst í því að vera sjálfum okkur nóg um helstu matvælanauðsynjar.

Góðir Íslendingar. Þrátt fyrir tímabundna kreppu, sem óþarfi er að gera lítið úr, ríður á að Íslendingar standi saman og við skulum hafa það hugfast að innviðir íslensks samfélags eru með því besta sem gerist í heiminum. Velferðarkerfið er sterkt, húsnæði er hér nægt til næstu ára og auðlindir eru ríkulegar. Við eigum ein gjöfulustu fiskimið heims, við eigum íslenska vatnið, við eigum orku í fallvötnum og iðrum jarðar og við eigum jafnvel vannýttar eða ónýttar olíuauðlindir. Síðast en ekki síst eigum við mannauð, mikinn mannauð sem er fólginn í duglegri og vel menntaðri þjóð sem sýnir samtakamátt sinn þegar á reynir.

Þrátt fyrir erfitt árferði eru spennandi tímar fram undan. Við erum að fara að móta nýtt samfélag og við munum vonandi hefja önnur gildi til vegs og virðingar líkt og samvinnu og félagshyggju. Það vandasama verk er að byggja upp traust í íslensku samfélagi. Íslensk stjórnsýsla, efnahagslíf og atvinnulíf þurfa að ávinna sér á ný tiltrú almennings og það á ekki síst við um störf okkar á Alþingi Íslendinga. Til þess að svo geti orðið þurfa ákveðnar breytingar að eiga sér stað. Við þurfum manneskjulegri og samfélagslegri gildi. Við þurfum aukið réttlæti og aukið lýðræði. Við þurfum gagnsæjar og faglegar ákvarðanir í íslensku samfélagi. Við þurfum að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi í stað sérhygli ákveðinna hópa eða einstaklinga. — Góðir Íslendingar, breytum rétt.