136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[21:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða í upphafi að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í vandasömum störfum. Hún tekur við í skugga mikilla erfiðleika sem óhjákvæmilegt er að áfram sé tekist á við af festu og ábyrgð. Það gefur augaleið að ýmislegt fór úrskeiðis hjá okkur í aðdraganda bankahrunsins og átti sinn þátt í því í kjölfar alþjóðlegrar fjármálakreppu að illa fór. Við skulum horfast í augu við þetta, læra af reynslunni og tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.

Fráfarandi ríkisstjórn glímdi við fyrstu afleiðingar bankahrunsins og efnahagskreppunnar með myndarlegum hætti þar sem teknar voru skjótar og markvissar ákvarðanir á fjöldamörgum sviðum sem nú eru sem leiðarljós inn í framtíðina. Í farvatninu voru síðan enn frekari og bráðnauðsynlegar aðgerðir sem höfðu það að markmiði að koma bankaþjónustunni í skikkanlegt horf, styrkja atvinnusköpunina og grípa til aðgerða til bjargar heimilum og atvinnulífinu. Þess vegna var ákaflega sérstakt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra rekja þau mál eins og þau hefðu dúkkað upp af borði nýrrar ríkisstjórnar. Um það get ég borið vitni að ekki var um að ræða ágreining um þau mál í fyrri ríkisstjórn. Þeim málum miðaði vel áfram og hefðu að öllu óbreyttu verið komin fram mörg hver. Því miður þraut annan stjórnarflokkinn, Samfylkinguna, örendið og kiknaði í hnjánum undan þeim erfiðu verkefnum sem við var að glíma. Þess vegna slitnaði upp úr stjórnarsamstarfinu og við fengum pólitískan óstöðugleika ofan í vandræði okkar.

Það fór ágætlega á því þegar hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon fór síðan að rifja upp ríkisstjórnarmyndunina frá 1988. Sú ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn eiga nefnilega ýmislegt sameiginlegt. Þeirri ríkisstjórn var líkt og fyrrverandi ríkisstjórn slitið í beinni útsendingu af stjórnmálamönnum sem flúðu af hólmi og í báðum tilvikum leiddi það til þess að hæstv. ráðherra varð ráðherra, eins og allir vita.

Hæstv. ráðherra talaði líka um að skattar hefðu verið hækkaðir fyrir jólin. Hann ætti að fara heim í ráðuneyti sitt og lesa sér aðeins betur til því það liggur fyrir að skattabreytingarnar með hækkun persónuafsláttarins urðu til þess að langflestir íslenskir launamenn fengu skattalækkun en ekki skattahækkun. Síðan var mjög skemmtilegt að hlusta á þegar hæstv. ráðherra trúði okkur fyrir því að nú væri komið á talsamband milli hans og hins ógurlega sjóðs, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eins og það væru sérstök tíðindi, sjóðurinn sem hann lýsti þannig fyrir jólin að hefði eiginlega átt uppruna sinn hjá þeim í neðra. Nú er bara að bíða eftir því að hæstv. ráðherra segi okkur frá því hvernig til tekst með frekari faðmlög VG og IMF.

Með samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, skýrri stefnu í ríkisfjármálum og fjölmörgum aðgerðum í þágu heimila og fjármálalífs má segja að lagður hafi verið ákveðinn grunnur. Fram undan eru gríðarlega viðurhlutamikil viðfangsefni sem nauðsynlegt er að takast á við af festu. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að byggt verði á mjög aðhaldssamri og ábyrgri stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum. Þess vegna lofar það ekki góðu að það sem helst hefur sést til verka ríkisstjórnarinnar fram að þessu stefnir í þveröfuga átt. Við höfum fengið að sjá útgjaldahugmyndir en engar aðhaldsaðgerðir og ekki glytti í þær nú í kvöld. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Sporin hræða því þegar við rifjum upp málefnalega fortíð þeirra sem fyrir núverandi ríkisstjórn standa er ekki annars að vænta, því miður, en áherslan verði ekki á aðhaldssemi heldur fremur lausatök.

Fyrstu dagar nýju ríkisstjórnarinnar eru heldur ekki mjög uppörvandi. Málin frá stjórninni streyma sem á færibandi, þ.e. ágreiningsmálin. Hingað til hefur enginn dagur liðið án þess að þau birtist okkur ekki í einu eða öðru formi. Í fyrradag voru það stóriðjumálin en enginn veit í dag hvort fylgt er uppbyggingarstefnu hæstv. iðnaðarráðherra eða stoppstefnu hæstv. umhverfisráðherra. Í gær deildu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra um gjaldmiðilsmál, frammi fyrir þjóðinni og fullum sal af fréttamönnum. Í morgun sáum við glytta í ansi efnilegt rifrildi um Evrópusambandsmál sem ýmist eru sögð úti á köldum klaka í ríkisstjórninni eða á tvíbreiðri hraðbraut með fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskránni. Eru Vinstri græn sammála formanni og þingmönnum Samfylkingarinnar um að tilgangurinn með boðuðum breytingum á stjórnarskrá sé að greiða fyrir ESB-aðild? Það er algerlega óhjákvæmilegt að flokkurinn svari því með skýrum hætti í þessari umræðu. Hinni nýju ríkisstjórn er afmörkuð 80 daga stund til verka sinna. Haldi hún uppi háttum sínum má búast við að það verði tími 80 ágreiningsefna, einnar deilu á dag.

Ákvörðun mín sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um að halda áfram hvalveiðum hefur komið af stað umræðu sem á margan hátt hefur verið óvænt. Ótti margra við að hvalveiðar kynnu að valda erfiðleikum, t.d. í ferðaþjónustu, hefur reynst ástæðulaus. Mikill vöxtur hefur þvert á móti verið í ferðaþjónustunni og erlendum ferðamönnum sem komið hafa hingað til lands hefur fjölgað úr 278 þúsund í ríflega 500 þúsund eða um 80% frá árinu 2002, árinu áður en hvalveiðar hófust. Hvalveiðar eru atvinnugrein sem byggist á skynsamlegri og ábyrgri auðlindanýtingu, er í samræmi við alþjóðlegar reglur og samþykktir og íslensk lög. Sú atvinnugrein, sem skapar okkur verðmæt störf á tímum atvinnuleysis, býr til gjaldeyri sem er mikil þörf á og getur starfað á eigin viðskiptalegum forsendum með sölu afurða. Því spyr ég: Hvers vegna ættum við að banna slíka atvinnustarfsemi? Ég trúi því raunar ekki fyrr en ég tek á að ríkisstjórn sem er undir forsæti þingreyndasta þingmanns á Alþingi Íslendinga eða hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur næstmestu þingreynsluna fari með harkalegum hætti gegn vilja þings og þjóðar sem margfaldlega hefur legið fyrir. Enda glyttir nú loksins í nýjan tón í hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í fyrsta skipti núna í kvöld.

Virðulegi forseti. Við erum sannarlega í miklum vanda stödd í efnahagslegu tilliti. En við erum kraftmikil þjóð með sterka innviði þjóðfélagsins og höfum alla burði til að vinna okkur út úr þessum vanda. Þar munu þeir hins vegar valda sem á halda. Þess vegna ríður á að vanda vel til verks, ekki ganga fram með misvísandi skilaboð og kæruleysislegum útspilum sem rýra tekjumöguleika okkar og dýpka kreppuna eins og hafa borist undanfarna daga úr Stjórnarráðinu. Við þurfum að hefja okkur upp yfir dægurríginn og sameinast um öfluga framfarasókn í þágu þjóðarinnar.