136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:47]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hefði hv. þm. Pétur H. Blöndal hlustað vel eftir því sem ég sagði þá talaði ég um að víkka þyrfti út ákvæði um þá sem hefðu stundað atvinnurekstur með sérstöku tilliti til þess sem kveðið er á um í frumvarpinu, þar sem það kemur fram. Ég tók einnig undir það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði varðandi bændur, ég taldi að þetta þyrfti að ná til annarra starfsstétta. Ég talaði líka um að þetta væri eitt af þeim atriðum sem allsherjarnefnd, sem mun fá málið til meðferðar, þyrfti að taka til skoðunar, einmitt með tilliti til þeirra sjónarmiða sem ég benti á. Það atriði er því alveg skýrt og enginn ágreiningur á milli mín og hv. þm. Péturs H. Blöndals um það. Þeir sem hafa verið í atvinnurekstri og þurfa að leita þessara úrræða eru að sjálfsögðu skuldugir. Ef menn vilja fara þá leið sem ég var að leggja til þá verða menn að gera þær breytingar á frumvarpinu að það leiði til þess að þeir aðilar geti leitað umræddra úrræða. Það er hins vegar alltaf spurning og að mínu viti er þetta ákveðið úrvinnsluatriði sem verður að leita samkomulags um að leysa og ég tel að það muni takast.

Varðandi samskipti fólks í síðustu ríkisstjórn þá var ég í stjórnarandstöðu og ber enga ábyrgð á því og ætla mér ekki að svara fyrir Samfylkinguna eða ráðherra hennar eða taka þátt í þeim heraldíska vopnaburði sem hér fer fram á milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.