136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál.

[10:31]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í dag eru þau tímamót að í kjölfar ákvörðunar yfirstjórnar sjúkrahússins fyrir áramót um að loka deildinni í sparnaðarskyni verður dagdeild geðdeildar sjúkrahússins á Akureyri sem starfað hefur þar um langa hríð með mjög góðum árangri endanlega lokað. Áformaður rekstur deildarinnar kostar um 27 millj. kr. á ári og þarna hafa verið um átta starfsmenn sem öllum var sagt upp eða störf þeirra lögð niður. Nokkrir þeirra eiga biðlaunarétt í allt að eitt ár þannig að fjárhagslegur ávinningur er mjög óviss fyrsta árið ef hann verður nokkur. Áformað er að spara um 17 millj. kr. með þessari aðgerð.

Á þessu ári var áformað að taka þarna inn 60 sjúklinga. Hver þeirra dvelur um fjóra mánuði í senn og hefur starfsemin eins og áður segir gefið mjög góða raun. Með þessari lokun gerist það að í fyrsta lagi mun innlögnum á bráðadeild fjórðungssjúkrahússins fjölga í staðinn þannig að kostnaður mun aukast þar. Hver dagur kostar um 100 þús. kr. svo það er fljótt að koma á móti þeim sparnaði sem hugsanlega kann að verða. Í öðru lagi mun álag aukast á Félagsþjónustu sveitarfélaga og kostnaður þeirra aukast og í þriðja lagi, og það sem alvarlegast er, er að þjónustan við geðfatlaða mun versna mjög mikið vegna þess að ekkert kemur í staðinn fyrir það sem lagt er niður.

Virðulegi forseti. Um 40% þeirra sem eru á örorkulífeyri eru það vegna geðsjúkdóma. Þessir sjúkdómar eru ákaflega algengir og alvarlegir og það (Forseti hringir.) er mjög alvarlegt mál, virðulegur forseti, að ráðist skuli hafa verið í þessar aðgerðir. (Forseti hringir.) Ég skora á virðulegan formann nefndarinnar að beita sér fyrir því að þessi ákvörðun verði tekin aftur.