136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál -- stefna í virkjunarmálum.

[10:46]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna og undirtektir formanns heilbrigðisnefndar við óskum mínum um að beita sér fyrir því að ákvörðun um 17,5 millj. kr. sparnað, sem felst í því að loka dagdeild geðdeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, verði afturkölluð.

Ég vil taka fram, vegna þess sem kom fram fyrr í umræðunni, að samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá forstöðumanni dagdeildarinnar er ekki rétt að síðar á árinu verði sambærileg þjónusta opnuð á öðrum stað. Allt starfsfólkið sem vann við þetta er hætt og farið. Kannski er stærsti hlutinn af meðferðinni fólginn í starfsmönnum sem vinna verkin og hafa þjálfað sig til þeirra. Með því að leysa upp starfsmannaliðið hefur þjónustunni verið spillt verulega og forstöðumaðurinn segir einfaldlega að með þessu sé verið að færa þjónustu við geðsjúka á fjórðungssjúkrahúsinu mörg ár aftur í tímann.

Ég vil því ítreka áskoranir mína til núverandi ríkisstjórnar um að beita sér fyrir því að afturkalla ákvörðunina sem mér finnst, eftir að hafa kynnt mér málið, vera ákaflega vanhugsuð.

Virðulegi forseti. Vegna þess sem hér hefur verið minnst á vil ég segja að þörf er á því að sýna aðhald í heilbrigðisútgjöldum eins og öðrum útgjöldum. Menn komast ekkert hjá því í því ástandi sem er og mun verða á næstu árum.

Ég hef ekki gagnrýnt tillögur fyrrverandi heilbrigðisráðherra til sparnaðar. Ég hef ekki lýst yfir stuðningi við þær allar en mér er ljóst að grípa verður til skipulagsbreytinga í heilbrigðiskerfinu, á stofnanavirkinu, til að ná niður kostnaði án þess að skerða þjónustuna. Aðalatriðið er, virðulegi forseti, að kerfið veiti þjónustu. Þess vegna er þessi (Forseti hringir.) aðgerð sem ég gagnrýni svo slæm, því að þjónustan er skert svo mikið.