136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál -- stefna í virkjunarmálum.

[10:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Við erum nú á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar hér í landinu og maður reynir auðvitað að átta sig á því hver stefna þeirrar stjórnar er í einstökum málum.

Ég veitti því athygli að í fyrrakvöld var viðtal við hæstv. iðnaðarráðherra í fréttum Stöðvar 2 þar sem hann lýsti yfir áhuga sínum á því að selja virkjanir til erlendra aðila og innlendra. Það var einkum nefnt í sambandi við Búðarhálsvirkjun og eins í sambandi við framkvæmdir fyrir norðan á Bakka.

Í frétt Stöðvar 2 kom fram að iðnaðarráðherra hefði um nokkurt skeið freistað þess að höggva á hnút sem kominn er í fjármögnun þessara verkefna með viðræðum við erlenda aðila. Ráðherrann hefur vísað til nýlegra lagabreytinga sem opna á eignarhald útlendinga á virkjunum án þess þó að þeir geti átt orkulindirnar sjálfar. Í samtali við Stöð 2 kvaðst ráðherrann tilbúinn til að skoða alla hluti ef það mætti verða til þess að skapa atvinnu og tekjur.

Nú leikur mér nokkur forvitni á að vita hvort þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er sömu skoðunar og hæstv. iðnaðarráðherra í þessum efnum. Hvort þessar þreifingar eða aðgerðir hæstv. iðnaðarráðherra eru í samræmi við stefnuna sem ríkisstjórnin hefur markað. Ég tek fram að ég fagna yfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra og er sammála honum um það að við núverandi aðstæður verðum við að leita allra leiða sem geta skapað atvinnu og tekjur. En mér leikur hugur á að vita hvort þingflokkur Vinstri grænna og formaður hans hv. þingmaður Jón Bjarnason eru sömu skoðunar.