136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál -- stefna í virkjunarmálum.

[10:57]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er tilefni hér af hálfu iðnaðarráðherra að gera nokkrar athugasemdir við málflutning manna. Ég ætla að byrja á því að gera athugasemdir við málflutning hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Hann sagði áðan að sjálfstæðismenn væru á móti því að auðlindir yrðu varðveittar í þjóðareigu. Það er ekki rétt. Það er alls ekki rétt. Hv. þm. Bjarni Benediktsson var formaður starfshóps stjórnarskrárnefndar sem komst að þeirri rökstuddu niðurstöðu að breyta ætti stjórnarskránni með þeim hætti að auðlindir yrðu í þjóðareign. Þannig að þótt starfandi leiðtogi Sjálfstæðisflokksins kunni að vera á annarri skoðun þá er keppinautur hennar um formennskuna í Sjálfstæðisflokknum á þveröfugri skoðun.

Sömuleiðis vil ég upplýsa að hv. þm. Jón Bjarnason hefur nákvæmlega sömu skoðun á þessu máli og fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson hafði þegar hann var borgarfulltrúi í Reykjavík. Bæði Vinstri hreyfingin – grænt framboð og núverandi meiri hluti sjálfstæðismanna í borgarstjórn og líka allir síðustu meiri hlutar sjálfstæðismanna í borgarstjórn hafa verið þeirrar skoðunar að virkjanirnar sjálfar eigi að vera í samfélagslegri eigu. Það er yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins á þessu svæði að þann hátt eigi að hafa á sem hv. þm. Jón Bjarnason hefur lýst hér.

Hins vegar liggur ljóst fyrir að lög eru í landinu sem banna að selja virkjanir. En þau heimila hins vegar að leigja vatns- og orkuréttindi til ákveðins árafjölda. Það liggur ljóst fyrir. Ég og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, samþykktum það í ríkisstjórn og síðan var það samþykkt hér á Alþingi Íslendinga. (Forseti hringir.) Við förum að lögum. Hins vegar segi ég það sem iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) að Íslendingar eru í klípu og ég lít á það sem hlutverk mitt að leita allra leiða (Forseti hringir.) til að reyna að (Forseti hringir.) koma þjóðinni út úr þeirri klípu. Þar (Forseti hringir.) á ég við hv. þm. Jón Bjarnason og líka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.