136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvort fram hafi farið fagleg greining sem undanfari þessa frumvarps sem hér liggur fyrir og svarið við því er já. Hv. þingmaður spyr hvort leitað hafi verið fyrirmynda erlendis og svarið við því er einnig já. Hv. þingmaður kallar eftir því hvaða lögfræðingar hafi komið að því máli. Ég ætla ekki að greina frá því hér en ég get fullvissað hv. þingmann um það og það er hægt að fara nánar yfir það í þeirri nefnd sem mun fjalla um málið að færustu lögfræðingar voru fengnir til þess að fara yfir þetta mál og leitað var til færustu lögfræðinga á þessu sviði. (Gripið fram í.) Enda held ég að þegar menn fara yfir þetta frumvarp og leita umsagna um það þá muni það verða staðfest að faglega var staðið að þessu máli og að því komu faglegir aðilar. (Gripið fram í.)

Auðvitað er það svo eins og hv. þingmaður nefnir að það er misjafnt hvernig peningastefnunefndir virka í seðlabanka sem þær nota, það er alveg rétt. En þetta er sú leið sem við töldum skynsamlegasta og undirbúningurinn að þessu máli var faglegur í alla staði.