136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:28]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð með að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli eyða dýrmætum tíma við þær erfiðu aðstæður sem nú eru til að lesa yfir gamlar ræður mínar. Ég er mjög ánægð með það. En ég held að þetta sé misskilningur hjá hv. þingmanni að það hafi bara verið hótanir í því bréfi sem ég sendi seðlabankastjórunum. Það liggur fyrir og var raunar eitt af meginatriðum sem ríkisstjórnin lagði áherslu á, það var að koma á endurskipulagningu á Seðlabankanum.

Þegar ég sendi þetta bréf var ég fyrst og fremst að kynna seðlabankastjórunum að ég óskaði eftir því að þeir mundu aðstoða okkur í því mikla verkefni sem fram undan er við að endurskipuleggja Seðlabankann. Þeim var boðið á fund með mér til þess að ég mundi heyra hvað þeir vildu í því sambandi að því er varðar starfslok þeirra. Vegna þess að ef þetta frumvarp verður að lögum, sem ég efast ekki um og tel að meiri hluti sé fyrir, (Gripið fram í.) þá verður skipt um seðlabankastjórn og þá kemur einn nýr seðlabankastjóri til starfa, eftir auglýsingu.

Það var því fyrst og fremst verið að gefa bankastjórunum tækifæri til þess að semja um starfslok sín sem geta verið önnur nú áður en þessi lög eru samþykkt en eftir á. Ég tel því að faglega hafi verið að þessu staðið, á allan hátt sem hægt var og því vísa ég á bug að ég hafi verið með einhverjar hótanir að því varðar það bréf sem ég sendi seðlabankastjórunum.