136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að gera langa sögu stutta er ég þeirrar skoðunar eins og við sjálfstæðismenn höfum verið að fullt tilefni sé til þess að fara yfir löggjöf á sviði fjármálamarkaðar. Að full ástæða sé til þess að fara yfir stjórnsýslu eftirlitsstofnana og að full ástæða sé til þess að gera breytingar ef þær byggja á málefnalegu mati og rökum. Það hefur ekki staðið á okkur í þeim efnum.

Sú leið sem nefnd var varðandi hugsanlega sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits styðst við ýmis rök. Ég þykist vita að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hafi í embætti viðskiptaráðherra nokkuð farið yfir það mál og velt því fyrir sér. Ég get sagt það að persónulega mér finnst sú leið koma vel til greina.

Hins vegar verður að gera þá kröfu til þeirra sem leggja fram frumvarp hér á þingi um tilteknar leiðir að þeir rökstyðji það, segi ekki bara: Við þurfum að gera eitthvað. Það er ekki málefnaleg meðferð mála. Það er bara fimbulfamb.