136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að vekja athygli á því að við höfum aðeins rætt um þetta mál innan við klukkustund og þar af hefur hæstv. forsætisráðherra talað í meira en helming tímans þannig að ég verð seint ásakaður um að tafsa og tefja þetta mál. Ég hef ekki gert það.

Ég hef hins vegar vakið athygli á því að því frumvarpi sem hér liggur fyrir er verulega ábótavant. Það er ekkert sem kemur fram um að það sé til þess fallið frekar en aðrar leiðir að leiða til betri Seðlabanka eða betra eftirlitskerfis með fjármálakerfinu í landinu.

Ég er sammála hv. þingmanni og raunar sammála flestu því sem kom fram í síðara andsvari hans að við þurfum að byggja upp traust. Við þurfum að byggja upp nýtt fjármálakerfi. Það er í rúst og hefur verið í rúst og við þurfum að standa í miklu enduruppbyggingarstarfi. Við verðum hins vegar að byggja það starf á faglegri vinnu, málefnalegum sjónarmiðum (Forseti hringir.) en ekki einhverjum upphlaupum.