136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægður með að hv. þm. Steinunni V. Óskarsdóttur þykir ræða mín merkileg, ég tek það sem hrós.

Varðandi þetta mál er ég alveg sammála því að gera þarf breytingar og ég hef margtekið það fram í þessum umræðum. Það þarf að gera breytingar á skipulagi, stjórnsýslu og löggjöf um fjármálamarkaðinn. Það sem við höfum verið að leggja áherslu á og það sem var meginþráðurinn í ræðu minni var að það þarf að vanda til verka. Það er ekki þannig að menn geti slengt einhverju frumvarpi fram bara til þess að reyna að skora einhver stig í einhverjum skoðanakönnunum en hafa ekki fyrir sér nein sérstök rök, ekkert faglegt mat, engan faglegan samanburð til þess að byggja niðurstöðu sína á. Við í þinginu hljótum að kalla eftir því að slíkt sé gert áður en gerðar eru breytingar á grundvallarstofnunum samfélagsins.