136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

áform um skattahækkanir.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Athyglisvert er að hlusta á hvernig hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, 8. þm. Reykv. n., lýsir ástandinu í þjóðfélaginu eftir 17 ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: En hvað með Samfylkinguna? Var hún ekki í ríkisstjórn?) Samfylkingin hefur verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í eitt og hálft ár. (Gripið fram í.) En það má segja að eftir 17 ára valdaferil þá er þetta mjög sérkennileg lýsing af vörum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar.

Nú er það svo að ríkisstjórnin hefur sett fram tillögur um hvernig hún ætlar að standa að málum næstu vikurnar. Ljóst er að við munum fylgja að fullu því plani sem hefur verið lagt með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í því felst að við munum hitta Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða fulltrúa hans um miðjan mánuðinn eða þar um bil. Þá verða áætlanir lagðar fyrir fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hvernig staðið verður að málum fram til ársins 2012 til að standa við það plan. Við höfum farið yfir áætlunina miðað við ríkisútgjöld og það sem við höfum sagt um það mál mun ganga eftir.

En að halda því fram að nú eigi að hækka skatta, kannski á næstu mánuðum eða svo, er fjarstæða. Það er fjarstæða að halda því fram.

Vel má vera að í áætlununum sem við þurfum að gera til næstu fjögurra ára þurfi kannski að fara bæði í niðurskurð og skattahækkanir. En ég get fullvissað hv. þingmann um að við munum ekki fara þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert komi til þess að við þurfum að hækka skatta, sem verður ekki á þessu ári. Að standa þannig að málum að minnka skattbyrði þeirra sem hafa það best í þjóðfélaginu en (Forseti hringir.) auka skattbyrði þeirra sem hafa lágar og meðaltekjur. Þannig stóð Sjálfstæðisflokkurinn að verki (Forseti hringir.) í tíð sinni í ríkisstjórn.