136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[15:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að standa fyrir þessari umræðu. Það er sjálfsagt að fara yfir stöðu þessa máls og kærkomið að upplýsa um hvar það er nákvæmlega á vegi statt. Menn þekkja bakgrunninn eða aðdragandann, sem sagt þann að fráfarandi sjávarútvegsráðherra, svo gott sem á síðustu klukkutímum sínum í ráðuneyti, tók þessa stóru og umdeildu ákvörðun, hafandi þó haft ærinn tíma til að gera það fyrr ef hugur hans hefði staðið til slíks. Við þær aðstæður sem þar með komu upp var að sjálfsögðu ekki nema rétt og skylt að ný ríkisstjórn, og ég sem nýr ráðherra í ráðuneytinu, vildi fá tíma til að skoða þetta mál.

Það fyrsta sem var gert var að skapa slíkar aðstæður til að tóm gæfist til að fara yfir forsendur og stöðu málsins. Það var gert með því að senda út formlega viðvörun um að slík skoðun færi fram. Það tel ég vera vandaða og rétta stjórnsýslu þannig að þeim sem málið varðar væri það ljóst að stjórnvöld tækju sér einhvern tíma í að fara yfir það. Með því eru væntingar settar í það samhengi og um leið er mönnum gefin vissa um að þeirri skoðun verði hraðað og ekki tekinn í það mikill tími að fá niðurstöðu í málið.

Að sjálfsögðu var strax hafist handa um það að fara yfir stöðu málsins, fara yfir stöðu þessarar ákvörðunartöku og stjórnsýslulega þætti sem því tengjast að afla gagna og ræða við aðila. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég get ekki gefið þeirri stjórnsýslu sérstaklega háa einkunn, því að ráðherra í starfsstjórn taki slíka ákvörðun og bindi hendur þeirra sem við eiga að taka ef lesinn er rétturinn í þessum efnum. Þó að fátæklegur sé og byggist að sumu leyti á hefðum en ekki skýrum textum er alveg ljóst að hin almenna regla er sú að starfsstjórnir taka ekki annað en nauðsynlegar ákvarðanir til að daglegur rekstur og dagleg framvinda hins opinbera geti haft sinn gang. Sú er hefðin og menn gerðu rétt í að hafa hana í huga og halda sig við hana. Í þessu get ég ekki gefið sérstaklega háa einkunn þegar ég fór að biðja um að þau gögn yrðu dregin saman sem lágu til grundvallar ákvörðunartökunni og ekki fannst einu sinni minnisblað í ráðuneytinu sem hafði legið til grundvallar þessari ákvörðunartöku ráðherrans og fremur fátækleg gögn þó að ýmislegt liggi að sjálfsögðu fyrir um þetta mál frá liðinni tíð eins og kunnugt er, skýrslur og fleira sem hér hefur verið vitnað í.

Það sem nú er verið að gera er að afla óháðs lögfræðilegs álits á stöðu málsins. Það er verið að draga saman gögn frá ráðuneytum. Þannig munu utanríkisráðuneytið, iðnaðarráðuneytið, sem fer með ferðamál, og umhverfisráðuneytið, sem að sjálfsögðu tengist þessu einnig, skila gögnum til sjávarútvegsráðuneytisins um málið.

Í þessari viku verða fundir með helstu málsaðilum, þ.e. með samtökum ferðaþjónustuaðila, með hvalveiðimönnum, með hvalaskoðunarfyrirtækjum. Ég hef þegar átt fund með Landssambandi íslenskra útvegsmanna, mun hitta forustumenn smábátamanna í vikunni og fleiri aðila sem þessu tengjast. Þegar líður á vikuna geri ég ráð fyrir því að að mestu leyti verði komin í hús gögn og upplýsingar sem auðvelda niðurstöðuna og taka halla af henni. Að sjálfsögðu er mikilvægt að fá fram öll sjónarmið í mál af þessu tagi. Hér eru miklir hagsmunir í húfi, við getum sagt á báða bóga eða á alla enda og kanta, hagsmunir þeirra sem hyggja á veiðar og nýtingu og atvinnusköpun á þessu sviði en líka hagsmunir hinna sem óttast að þeir kunni að bíða skaða af fari hvalveiðar í atvinnuskyni í stórum stíl af stað. Þar vegur ferðaþjónustan þungt og hvalaskoðunin sem atvinnugrein sem skiptir miklu máli á ýmsum stöðum á landinu. Ferðaþjónustan hefur verið ein mesta vaxtargrein ef ekki sú allramesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs um nokkuð langt árabil og þegar menn bera saman skýrslur og tölur frá umliðnum árum og að hvalveiðar hafi ekki haft þar teljandi áhrif er rétt að hafa í huga að þau voru uppgangsár í ferðaþjónustu ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Nú eru aðrar aðstæður því miður, jafnvel búist við umtalsverðum samdrætti í ferðaþjónustu á heimsvísu þannig að staða Íslands kann að verða miklu viðkvæmari í þessum efnum en áður var. Að öllu þessu þarf að hyggja.

Að lokum er eitt sem vekur mikla athygli þegar þessi mál eru skoðuð. Það er hversu fátæklegur og ótraustur lagagrunnurinn er sem þarna er byggt á. Hér er um að ræða lög frá fimmta áratug síðustu aldar sem ekki hafa verið endurskoðuð og færð í nútímalegt horf, eru í raun og veru í engu samræmi við þær aðstæður (Forseti hringir.) sem nú eru og reglur sem gilda t.d. um meðferð veiðiréttinda og annað slíkt. (Forseti hringir.) Ég hlýt einnig að spyrja: Hverju sætir að forverar mínir í embætti og áhugamenn um hvalveiðar (Forseti hringir.) unnu þá ekki þá heimavinnu að endurskoða lög um hvalveiðar þannig að þar væri (Forseti hringir.) hægt að byggja á traustum lagalegum grunni?