136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[15:56]
Horfa

Sigurður Pétursson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé augljóst að langflestir telja að rétt sé að nýta allar auðlindir lands og sjávar sem þessi þjóð býr yfir. Ég tel að það sé líka nokkuð ljóst að það sjónarmið að nýta skuli auðlindirnar með sjálfbærum hætti eigi sér mjög víðtækan hljómgrunn.

Ég held að þessi sjónarmið eigi einnig við um hvalastofnana og það hefur ekkert komið fram sem sýnir fram á að hvalveiðar ógni þessum tveimur sjónarmiðum.

Fyrir okkur sem teljum rétt að nýta hvalastofnana við landið hefur fyrrverandi sjávarútvegsráðherra þó ekki gert okkur neinn greiða með þeirri reglugerðarbreytingu sem hann gerði á sínum síðasta degi í embætti. Með því að breyta reglugerðinni með þeim hætti sem hann gerði í máli sem allir vita að er umdeilt og umdeilanlegt gerði hann engan greiða þeim sem vilja nýta auðlindir landsins.

Ég trúi því að núverandi sjávarútvegsráðherra muni vega og meta öll sjónarmið í þessu máli og ég treysti því að hann muni gera breytingar á þessari reglugerð. Ég treysti því jafnframt að niðurstaða hans verði sú að halda áfram hvalveiðum, sérstaklega hrefnuveiðum. (Gripið fram í.) En hins vegar vil ég að það komi skýrt fram að sjónarmið okkar í Samfylkingunni sem aðhyllumst hvalveiðar eru ekki þau að koma á nýju kvótakerfi hvalveiðimanna ofan á annað kvótakerfi sem er fyrir hendi, heldur að reglugerðinni verði breytt og bætt þannig að allir fái að njóta þessarar auðlindar þó að þeir fái ekki að nýta aðrar auðlindir. (Gripið fram í.)