136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir að koma í pontu og gera grein fyrir viðhorfum sínum í þessu máli. Ég skil út af fyrir sig vel að menn hafi ekki mjög langan tíma í þessari ríkisstjórn. Ég hefði hins vegar talið að það skipti okkur mjög miklu máli eins og nú árar að veita það frelsi sem hér er verið að leggja til þó að menn takmarki það frekar. Ég segi bara alveg eins og er, hæstv. forseti, að það er mjög auðvelt að finna upp takmarkanir. Ef menn halda að það skorti hugmyndir í því er ekki svo.

Hæstv. ráðherra vék að því áðan að tveir duglegir menn með tvær handfærarúllur á mann gætu fiskað vel. Það er alveg hárrétt, þeir geta það við vissar aðstæður. En það er líka mjög auðvelt að setja reglu um að fækka þessum handfærarúllum og hafa þær aðeins þrjár svo ég nefni eitthvað sem dæmi. Það er líka auðvelt að setja reglur um að þessir bátar hefðu ekki heimild til að róa um helgar. Það er hægt að setja hina viðurkenndu reglu sem við settum hér á fyrir mörgum árum, að ekki væri eðlilegt að dengja á land miklum fiski í kringum verslunarmannahelgi vegna þess að menn hefðu bara ekki tækifæri til að vinna úr honum. Þetta voru alþekktar reglur og sneru að því að tryggja gæði. Það má líka setja reglu um það að menn séu ekki að þvælast á sjó í kringum þjóðhátíðardaginn eða sjómannadaginn. Það er enginn skortur á hugmyndum í takmörkunum, á þetta takmarkaða frelsi sem við erum hér að leggja til, ef menn vilja hleypa þessu af stað.

Ég held hins vegar að það skipti ofboðslega miklu máli, hæstv. forseti, að bregðast við. Þetta getur gefið 100–200 mönnum tækifæri til atvinnusköpunar á þessu ári og (Forseti hringir.) eigi mun af veita. Til framtíðar þarf auðvitað að vanda sig við þetta mál þegar á að setja það inn í lagabálk til margra ára, ég geri mér grein fyrir því.