136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:17]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. Jón Bjarnason vilji styðja þetta frumvarp, kannski með einhverjum breytingum en það er ekki stóra málið. Ég vil benda hv. þingmanni á að það er hægt. Ráðherra getur tekið með reglugerð tegundir út úr kvóta. Það þarf ekki að koma inn í þingið til að flytja frumvarp um það að taka til dæmis þorsk út úr kvóta. Það er hægt að taka út úr kvóta tegundir sem ekki hafa verið nýttar á síðustu árum eins og til dæmis rækjuna. Það er hægt að taka hana beint úr kvóta. Það er hægt að taka ufsa, ýsu og skötusel út úr kvóta án þess að fara með það í gegnum þingið. Þetta er reglugerðarákvæði sem ráðherrann hefur og hann á að nýta sér þetta ef hann vill gera einhverjar breytingar. Það tekur ekki langan tíma að breyta einni reglugerð.

Það er ánægjulegt að heyra að hv. þm. Jón Bjarnason skuli vilja sólarlagsákvæði í fiskveiðistjórnarlögin (JBjarn: Og ný tækju við.) og ný tækju við þannig að það er hið besta mál. En ég óttast að Vinstri grænir ætli sér að gera allt of lítið í þessum málum. Ég óttast það. En ég vona svo sannarlega að þeir láti hendur standa fram úr ermum og geri eitthvað í þessum málum. Vinstri grænir tala um að græða landið, græða hafið en það er dálítið skondið þegar togaraskipstjórinn sem dregur fimm tonna hlera á eftir sér á hverjum degi alla daga ársins talar um að (Forseti hringir.) breyta fiskveiðistjórnarkerfinu.