136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[18:34]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Ég ætlaði að vera með nokkrar athugasemdir og bæta við hlutum sem ég gleymdi, hæstv. forseti. (MÁ: Þú hættir þessu. Birkir er með í fimm mínútur. Svo fara ...) Ég hef fengið hérna góða leiðsögn um það hvernig við ætluðum að reyna að klára þennan dag hér í þinginu og ég held að ég leggi það á mig að tala þá stutt.

Varðandi það sem hv. þm. Sigurður Pétursson benti hér á þá er það alveg rétt sem hann talaði um að það er verið að braska með nýtingarréttinn. Það er ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða um að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar og afnotaréttur og nýtingarréttur er það sem er verið að tala um. Ég vil þó koma inn á það að auðvitað má fækka tegundum sem er núna verið að setja inn í kvótann gagngert til þess að veðsetja þær.