136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[14:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum hér um staðfestingu tveggja viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu. Ég kem hér fyrst og fremst til að lýsa afstöðu okkar sjálfstæðismanna sem styðjum þessa tillögu heils hugar og aldrei slíku vant get ég tekið undir nær hvert orð sem hæstv. utanríkisráðherra sagði í ræðu sinni. (Gripið fram í.) Það var á mörkunum.

En alla vega fögnum við því að þessi tvö ríki verði brátt fullgildir meðlimir í Atlantshafsbandalaginu. Eins og kemur fram í greinargerðinni hefur af hálfu Atlantshafsbandalagsins alltaf verið lögð áhersla á að fyrirhuguð stækkun leiði til aukins stöðugleika og öryggis í Evrópu og muni koma til með að styrkja enn frekar lýðræðisþróun í þessum hluta Evrópu og í viðkomandi ríkjum. Við styðjum þetta og munum greiða fyrir málinu í vinnu hv. utanríkismálanefndar.

Ég get samt ekki látið hjá líða, þetta er of gott tækifæri, en ég hef lúmskt gaman af því að sjá hvernig hv. formaður utanríkismálanefndar engist nokkuð með þetta mál. Hann lýsti hér afstöðu sinni og flokks síns til hernaðarbandalaga. Ég hef átt nokkur orðaskipti úr þessum stól við formann flokks hv. þingmanns um það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur kallað mikið hernaðarbrölt og við höfum ekki alltaf verið sammála í þessu. Ég verð að viðurkenna að ég hlakka til að sitja fundi hv. utanríkismálanefndar undir forustu þingmanns Vinstri grænna þar sem fjallað er um stækkun Atlantshafsbandalagsins. Ég treysti því að þingmaðurinn muni styðja það mál heils hugar enda um stjórnartillögu þessarar ágætu minnihlutastjórnar.

En af því að Georgía var til umræðu ætla ég ekki að fara í sögukeppni við hv. þingmann en þar sem allir geta þess hér að þeir hafi komið til Georgíu verð ég að lýsa því að ég heimsótti það ágæta land fyrir tæpum tveimur árum. Ég tek undir það sem sagt hefur verið um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og að við eigum ekki að standa í vegi fyrir því að fullvalda þjóðir taki sínar ákvarðanir. Þá vona ég að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson muni gera slíkt hið sama ef til þess kemur að flutt verði sams konar tillaga um aðild Georgíu að Atlantshafsbandalaginu sem ég vona að einhvern tímann verði. Það virðist vera vilji þjóðarinnar, að minnsta kosti georgísku þjóðarinnar — að minnsta kosti hafa yfir 70% þjóðarinnar lýst stuðningi við aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt sem þingmaðurinn nefndi að við virðum sjálfsákvörðunarétt þjóða.

En nóg um það. Ég endurtek stuðning okkar sjálfstæðismanna við þessa þingsályktunartillögu og mun greiða fyrir henni í störfum hv. utanríkismálanefndar.