136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[14:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Umræðan um þetta mál er kannski farin snúast um annað efni líka sem ég ber reyndar ábyrgð á að hafa léð máls á sem varðar Kákasus og Suður-Ossetíu. Ég ætla bara að segja að mér fyndist áhugavert að við tækjum umræðu og fengjum kynningu á þeim málum öllum á vettvangi utanríkismálanefndar. Ég er þess fullviss að það sé allt of lítil þekking á málefnum þessa héraðs hér á landi og víðar á Vesturlöndum. Og varðandi það þegar hv. þingmaður talar um óskir þeirrar þjóðar þá gildir að sjálfsögðu í mínum huga alveg það sama um óskir eða sjálfsákvörðunarrétt þeirrar þjóðar. En ég vek hins vegar athygli á að ossetíska þjóðin er ekki georgíska þjóðin. Þær eru í raun ekki einu sinni skyldar. Þær tala allt annað tungumál, þær hafa allt aðra menningu og því er mikill munur á ossetísku þjóðinni annars vegar og georgísku þjóðinni hins vegar. Abkaska þjóðin er hins vegar skyldari þeirri georgísku ef við förum út í etýmólógíuna í tungumálum og sögu og menningu þessara þjóða. Væri fróðlegt fyrir þingmenn að kynna sér skrif hins virta fræðimanns Friðriks Þórðarsonar, prófessors við Háskólann í Ósló, sem var manna fróðastur í veröldinni allri um málefni Kákasusþjóða og hefur skrifað margar ritgerðir og greinar um sögu þeirra, menningu og hvers vegna þær eru sjálfstæðar. Til að mynda fyrir tveimur árum, post mortem, kom út fyrsta ritið um ossetíska málfræði skrifað af Friðriki Þórðarsyni. Við getum því leitað í smiðju til okkar virta fræðimanns sem fjallaði mikið um og rannsakaði sögu og menningu þessara þjóða og bjó lengi á Kákasussvæðunum. Af minni hálfu væri áhugavert að fá umfjöllun um þetta mál þó að það (Forseti hringir.) sé ekki sérstakt þingmál á vettvangi hv. nefndar og ég mun kanna (Forseti hringir.) hvort flötur er á því.