136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[15:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Samkvæmt núgildandi 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt fá byggjendur íbúðarhúsnæðis endurgreidd 60% af þeim virðisaukaskatti sem þeir greiða af vinnu manna á byggingarstað og vegna vinnu við endurbætur eða viðhald. Með frumvarpinu er lagt til að þetta endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts verði, á tímabilinu 1. mars nk. til 1. júlí 2010, hækkað úr 60% í 100%.

Heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt af þessu tagi var fyrst lögfest árið 1989. Til ársins 1996 var virðisaukaskattur vegna vinnu manna á byggingarstað og vegna endurbóta og viðhalds endurgreiddur að fullu. Sú heimild var lækkuð niður í 60% árið 1996 til að mæta tekjutapi ríkisins vegna breytinga á lögum um vörugjald.

Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í efnahagslífi þjóðarinnar er með frumvarpinu lagt til að hlutfall þessara endurgreiðslna verði tímabundið hækkað úr 60% í 100% vegna vinnu manna á byggingarstað og til eigenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald. Markmiðið með slíku ákvæði, sem er ákvæði til bráðabirgða, þar sem um tímabundna ráðstöfun er að ræða, er að koma til móts við húsbyggjendur sem eiga í erfiðleikum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga, sporna gegn svartri atvinnustarfsemi og hvetja til aukinnar starfsemi á byggingamarkaði. Ekki síst þetta síðasttalda, að hvetja til þess með ívilnandi aðgerðum að fólk noti nú tækifærið og ráðist í framkvæmdir af þessu tagi, viðhald, endurbætur eða klári byggingar sem eru í smíðum og nýti sér þá um leið hagstæðar aðstæður á vinnumarkaði þar sem nú er auðvelt að fá starfsmenn til starfa við slík verkefni en hefur ekki endilega verið á undanförnum árum eins og kunnugt er.

Hækkað endurgreiðsluhlutfall hvetur til framkvæmda en það er mikilvægt þegar atvinnuástandið er jafnbágt og nú er og horfur eru á á næstunni, og ekki síst í byggingariðnaðinum. Það er ljóst að það er orðið mikið atvinnuleysi. Sá geiri atvinnulífsins hefur dregist harkalega saman. Hér ætti að mega ætla að hagsmunir færu vel saman, hagsmunir þeirra sem þarna fá hagstæðara umhverfi til að ráðast í þessar framkvæmdir, hagsmunir byggingariðnaðarins og þeirra starfsmanna sem þar hafa misst atvinnu, eða dregið úr atvinnu hjá, og ekki síst hins opinbera í þeim skilningi að þetta gæti þá slegið eitthvað á atvinnuleysi sem ella yrði meira, sem þessu næmi, með tilheyrandi mannlegum erfiðleikum og kostnaði. Auk þess er rétt að geta þess að almennt er litið svo á, og var meginröksemdin fyrir þessu fyrirkomulagi á sínum tíma, að aðgerð af þessu tagi stuðli að minni undanskotum frá skatti og dragi úr líkum á svartri atvinnustarfsemi og loks, eins og áður sagði, dregur þessi aðgerð vonandi nokkuð úr þörf fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta á móti.

Í annan stað er með frumvarpinu lagt til að auk verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa verði heimilt í reglugerð að kveða á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum húseiningum. Samkvæmt núgildandi lagaákvæði nær þessi reglugerðarheimild í lokamálslið 1. mgr. 42. gr. eingöngu til endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum. Ýmsar breytingar hafa átt sér stað í byggingarháttum frá þeim tíma sem þetta ákvæði í 1. mgr. 42. gr. var sett. Byggingaraðferðir og byggingartækni hafa breyst og sala t.d. á steinsteyptum húseiningum hefur aukist umtalsvert. Þannig fer þá bygging íbúðarhúsnæðis í auknum mæli fram annars staðar en á eiginlegum byggingarstað. Til að koma á jafnræði milli byggingaraðferða, þ.e. hvort bygging íbúðarhúsnæðis fer fram á byggingarstað eða með öðrum hætti, er með frumvarpinu lagt til að heimilt verði með reglugerð að kveða á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum húseiningum sem komið hafa til sögunnar í talsverðum mæli eftir að þetta ákvæði var sett.

Þar sem uppgjörstímabil virðisaukaskatts eru tveir mánuðir vegna nýbygginga er með frumvarpinu lagt til að gildistaka miðist við upphaf næsta reglulega uppgjörstímabils, þ.e. 1. mars 2009, og ég vonast til að virðulegt Alþingi geti haft það í huga við skoðun sína á málinu, að það væri ákaflega æskilegt að það væri orðið að lögum fyrir þennan tíma, helst svolítið fyrir þennan tíma, þannig að framkvæmdin verði undirbúin og við náum næsta tveggja mánaða uppgjörstímabili virðisaukaskatts á nýbyggingum.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu. Ég vil svo bæta því við að það er að sjálfsögðu mikilvægt að þetta úrræði verði vel kynnt fyrir þeim sem geta nýtt sér það á næstunni þannig að menn geti lagt sín plön og sínar áætlanir fljótt. Þeim mun fyrr sem þetta mundi leiða til betra ástands í byggingariðnaði og skapa störf þeim mun betra er það augljóslega eins og atvinnuástandið hefur verið að þróast að undanförnu.