136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna – Icesave-deilan.

[13:45]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði úr þessum stóli fyrir stuttu að það yrði að móta stefnu bankanna til lengri tíma. Og það er alveg hárrétt. Þess vegna skilur maður ekkert í því af hverju í ósköpunum er verið að hræra svona með stjórnina og með stjórnendur bankanna. Ég er ekki að gera lítið úr Ásmundi Stefánssyni. Ég er bara að segja að það hefði verið miklu eðlilegra að Elín hefði fengið stuðning til þess að vera í stöðu sinni áfram, fram á haustið og Ásmundur, sá ágæti fíni maður, hefði áfram verið formaður. Síðan hefði hæstv. forsætisráðherra lýst yfir trausti á þá leið að hún styddi bankaráðið, að hún bæri fullt traust til þeirra sem þar sitja.

Sú ríkisstjórn sem nú starfar, minnihlutastjórn, mun starfa í nokkra daga. Hefði ekki mátt bíða og eyða smákröftum í að móta stefnuna til lengri tíma, eins og talað var um, í stað þess að vera í rauninni að veikja alla stjórnendur bankanna sýknt og heilagt? (Gripið fram í.) Veikja bankana þegar það liggur fyrir að stærsta vandamálið og stærsta verkefnið, (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra, stærsta verkefnið er einmitt að endurreisa bankana. Styrkja bankakerfið svo hægt sé að hjálpa heimilunum og fyrirtækjunum í landinu að koma undir sig fótunum. (Gripið fram í.)

Maður skiptir ekki um hest í miðri á, voru fræg ummæli formanns Samfylkingarinnar og það virðast ætla að verða eftirmæli hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það er alltaf verið að skipta um hest í miðri á. Sýknt og heilagt. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því upplausnarástandi sem hér er. (MÁ: … Sjálfstæðisflokkinn.)

Það hefði verið auðvelt að halda hérna smáfestu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið tilbúinn og er tilbúinn til þess að halda utan um þessi mál, ásamt ykkur og vinna að framgangi og uppgangi bankanna. Það er ekki gert með því að vera alltaf að hræra í stjórnendum bankanna og veikja þá og veikja stjórnir bankanna. Þannig endurreisum við ekki bankakerfið, hæstv. forseti.