136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna – Icesave-deilan.

[13:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Mér sýnist að upplausnarástandið ríki einungis innan Sjálfstæðisflokksins eða að minnsta kosti hluta Sjálfstæðisflokksins. (GAK: Æ, æ, æ, æ.) Ég vil koma hingað til þess að verja fyrrverandi kollega minn í ríkisstjórninni, fyrrverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Árna M. Mathiesen, vegna þess að árás hv. þingmanns sem hér talaði áðan beinist að honum líka.

Það hefur komið fram í máli fyrrverandi viðskiptaráðherra að það voru teknar ákvarðanir (Gripið fram í: Hvað sagði forsætisráðherra?) við ríkisstjórnarborðið. Málið var rætt við ríkisstjórnarborðið að viðstöddum öllum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

Síðar sama dag og að morgni dagsins eftir áttu þáverandi viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra Árni Mathiesen viðtölin sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson greindi frá áðan þar sem stefnu ríkisstjórnarinnar sem þá sat var komið á framfæri. Sú stefna sem hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson deilir á núna er stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn mótaði. (Gripið fram í: Hvað með forsætisráðherrann?) Það var fyrrverandi fjármálaráðherra sem sjálfur (Gripið fram í: Hvað sagði forsætisráðherrann?) ræddi við formenn bankaráðanna um að auglýsa bæri stöður bankastjóranna. (Gripið fram í: Hvað er að gerast núna?)

Svo kemur hv. þingmaður núna og eys hér úr sér, fer með himinskautum, yfir hverju? Yfir því að það er verið að framkvæma ákvörðun sem fyrri ríkisstjórn tók. (GMJ: Það er að koma prófkjör.) Nákvæmlega. Hér kallar fram í einn af greindustu þingmönnum Frjálslynda flokksins og bendir á þá staðreynd að það sé að koma prófkjör. Og það er eina ástæðan fyrir því að hv. þingmaður kemur og eys úr skálum reiði sinnar yfir þá sem voru í forustu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í (Forseti hringir.) ríkisstjórn. Því þetta var ákvörðun þeirra.