136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

útflutningur hvalafurða.

284. mál
[14:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að svara þessari fyrirspurn og það er tiltölulega einfalt. Það hefur verið aflað gagna frá Hagstofu Íslands og þar kemur fram að verðmæti útfluttra hvalafurða árið 2008 var samtals 95 millj. 149 þús. 140 kr. Þetta sundurliðast þannig að á árinu 2008 voru flutt út 909 kíló af hrefnukjöti til Færeyja að verðmæti 722.927 kr. Þá voru flutt út 81.774 kíló af frystum hvalafurðum, þ.e. langreyðarkjöti til Japans að verðmæti 94 millj. 38 þús. 488 kr. Loks voru flutt út heil 90 kíló af hvallýsi til Noregs að verðmæti 387.725 kr. Þetta eru að sjálfsögðu tölur sem taka mið af flutningskostnaði eins og hann var í þessum tilvikum og gengi eins og það var þegar þetta er gert upp hjá Hagstofunni.