136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:58]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu um efnahagsmál en langar til að benda á að unga fólkið okkar er að missa vinnuna. Alls voru 4.848 á aldrinum 16–29 ára atvinnulausir í janúar, alls 39% þeirra sem eru skráðir. Af þeim höfðu 1.023 verið atvinnulausir í meira en sex mánuði og langtímaatvinnuleysi er fram undan.

Yfir 660 ungir aðilar eru á vanskilaskrá. Mér finnst þetta alvarlegt áhyggjuefni í þjóðfélaginu í dag, en langar til að benda á annað sem ég tel að mjög mikilvægt sé að komi inn í umræðuna: Hvað höfum við Íslendingar, rúmlega 300.000 hræður á þessu litla skeri, að gera með þrjá ríkisbanka? Mér finnst það fráleitt. Tveir ættu að duga og svo ætti að fá einn erlendan banka inn.

Í morgun kom fram í umræðu hjá sjálfstæðismönnum, eins og áðan hjá hv. þm. Geir H. Haarde, að þeir eru alveg miður sín yfir hreinsunum í stjórnkerfinu. Ég vil benda sjálfstæðismönnum á að almenningur í landinu kallar á hreinsun í öllu stjórnkerfinu, öðruvísi er ekki hægt að byggja upp traust hjá almenningi, þ.e. ekki nema með breytingum og að skipta út öllum toppum í stjórnkerfinu.

Aðrir þættir eru alvarlegir út af atvinnuleysi, andleg hlið fólks. Allt þetta atvinnuleysi hefur haft mjög mikil áhrif, heilsufarsleg, andleg og félagsleg. Þingmenn ættu að gera sér grein fyrir því að það hefur líka valdið sjálfsmorðum. Ég vil beina orðum mínum til ríkisstjórnarinnar að athuga það að innheimta skulda má ekki vera jafnharkaleg og nú er, beiðnir hafa farið frá ríkisstjórninni til banka og opinberra stofnana og sveitarfélaga um að milda aðgerðir gagnvart skuldurum. Í flestum tilvikum eiga þeir ekki sök á stöðunni eins og hún er núna. Samt er enn gengið mjög harkalega þar fram svo að ég vil beina því til ríkisstjórnarinnar að setja fastar reglur til banka og opinberra aðila um að hjálpa til, eins og mögulegt er, þannig að fólk tapi ekki trú á þjóðfélaginu, lífsmöguleikum sínum og afkomu.

Ríkisstjórnir síðustu 18 ára geta ekki sagt að þær hafi ekki brugðist fólkinu í landinu og atvinnulífinu með gjörðum sínum. Það hafa þær gert, þeirra er ábyrgðin. Allir flokkar á Alþingi verða að taka höndum saman og vinna að bættara samfélagi, pólitískar línur verða að víkja og það strax. Hugsa verður um heimilin og atvinnulífið til að byggja þjóðfélagið upp aftur og ekki seinna en í gær. Nota á umræðuna á Alþingi til að fjalla um mál sem skipta þjóðfélagið máli en ekki í pólitískt karp.