136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

ráðningar.

[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Mér er mjög ljúft að svara hv. þingmanni og ég tek eftir því að hv. þingmaður nefnir ekki hver þessi maður er. Þetta er fyrrverandi aðstoðarmaður Árna Magnússonar, fyrrverandi félagsmálaráðherra, sem þremur mánuðum (Gripið fram í.) fyrir kosningar var skipaður formaður stjórnarnefndar um málefni fatlaðra til fjögurra ára.

Nú veit hv. þingmaður það mætavel að þegar um stjórnarskipti er að ræða er mjög algengt að trúnaðarmenn fyrri ríkisstjórnar — sem eru í stöðum eins og formennsku hjá stjórnarnefnd um málefni fatlaðra — að oft er óskað eftir því og beðið um að viðkomandi víki fyrir trúnaðarmanni ráðherra. Ég spyr: Finnst hv. þingmanni eðlilegt að ég hafi sem formann í þessari mikilvægu stefnumótandi nefnd aðstoðarmann fyrrverandi félagsmálaráðherra? Ég tók þetta upp í ríkisstjórn, ræddi þetta þar — af því að ég heyrði að fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra var að grípa fram í. Menn voru yfir sig hneykslaðir á því að þetta skyldi vera með þeim hætti. Sigurjón Örn Þórsson krafðist fjögurra ára launa sem stjórnarformaður í fjögur ár, tveggja milljóna.

Það er bara mjög sérkennilegt að þessi maður hafi ekki orðið við beiðninni. Það er algengt að fólk verði við slíkum beiðnum og meira að segja framsóknarmenn sem sátu í mikilvægum nefndum í félagsmálaráðuneytinu komu til mín og óskuðu eftir að fá að fara úr nefndum þar sem þeir voru formenn og töldu eðlilegt að skipt væri um formann. Ég mótmæli því að hann hafi ekki haft andmælarétt vegna þess að ég bauð honum að koma til mín. (Gripið fram í.) Ég bauð Sigurjóni að koma á minn fund til að ræða þetta en hann þáði það ekki. (Gripið fram í.)

Það var líka hringt í þennan mann strax. Það lá fyrir að ég vildi þessi skipti og hann sagðist sýna því skilning. Það er því mjög sérkennilegt að hv. þingmaður skuli koma með þetta inn í þingsali vegna þess að ég held að það hafi verið eðlilega að málinu staðið. Dómurinn er fallinn (Forseti hringir.) og ég viðurkenni hann en að mörgu leyti var mjög sérkennilega staðið að þessu (Forseti hringir.) af aðstoðarmanni fyrrverandi félagsmálaráðherra.