136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

loðnuveiðar.

[15:28]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það væri fróðlegt ef hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra upplýsti okkur um hvað Hafrannsóknastofnun hefur náð að mæla mikið magn af loðnu og hvort tekin sé einhver áhætta með 50 þús. tonnum, sem ég tel ekki vera áhætta að neinu marki. Ég held að það skipti óverulegu máli.

Auðvitað vilja menn fara varlega í sakirnar eins og í mörgu öðru en hér er fjöldi starfa og mikil verðmæti í húfi. Það er engin ástæða til þess að ætla að 50 þús. tonn til eða frá ríði baggamuninn varðandi það hvort loðnustofninn verður til í framtíðinni eða ekki. Það er miklu nær að leyfa flotanum að vera á svæðinu þar sem menn eru við veiðar þó að það sé svona lítið magn, og geta þá fylgst með. Þar að auki er hugsanlegt að það komi einhver loðna að vestanverðu sem oft hefur bjargað miklu.