136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

vinnubrögð við gerð fjárlaga.

241. mál
[18:56]
Horfa

Flm. (Ármann Kr. Ólafsson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Við hefðum betur skorið niður fyrr, það er rétt hjá hv. þingmanni. Ég get þó ekki látið hjá líða að geta þess að Sjálfstæðisflokkurinn — hann var nú í ríkisstjórn með ýmsum öðrum flokkum, en fór yfirleitt fyrir forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Þrátt fyrir að aukningin væri með þessum hætti fór flokkurinn — ef gera á hann ábyrgan fyrir þessu öllu — fyrir því að skuldir ríkisins yrðu greiddar niður, og það var gert þrátt fyrir þetta. Meira var gert en það, búið var að safna upp talsverðum sjóðum áður en þetta blessaða bankahrun kom til. Að því leytinu til sýndi Sjálfstæðisflokkurinn mikla ábyrgð hvað skuldsetninguna varðaði.

Menn voru að borga hátt hlutfall af landsframleiðslu í vaxtakostnað þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda. Það var búið, sá liður var orðinn að vaxtatekjum þegar ósköpin dundu yfir okkur. En jafnvel þó að þau ósköp hefðu ekki dunið yfir hefði verið eðlilegt að ganga enn lengra í þeim sparnaði. Sjálfstæðisflokkurinn hafði líka bent á að kannski hefði verið tilvalið fyrir fleiri aðila, eins og t.d. bankana, að draga saman seglin. Það hefði verið mjög gott.

Það breytir því ekki að það er mjög mikilvægt, og ekki síst þegar vel gengur, að passa ríkisútgjöldin. Í blárestina var það hins vegar meðvituð stefna að eyða umfram það sem fjárlögin buðu upp á, þ.e. að skila fjárlögum með halla, til þess að halda framkvæmdastiginu uppi, það var hugmyndin. Til þess að viðhalda atvinnustiginu, til þess að allir héldu vinnu sinni, en svo kom hrunið.