136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál.

[13:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra fyrir að taka þetta mál upp þó að mér finnist býsna mikil dirfska að draga þetta fram með þessum hætti og ætla mér svolitla ábyrgð á því hvað verður um Hólastað.

Ef við lítum til baka þá áttaði ég mig á því þegar ég kom inn á hv. Alþingi á sínum tíma sem þingmaður Norðvesturkjördæmis að Hólaskóli hefði um margt verið rekinn á aukafjárveitingum eða fjáraukalögum og ekki fengið fjárveitingar í samræmi við nýjar samþykktir um háskólann. Að auki hafði skólinn dregið með sér býsna miklar skuldir frá ári til árs. Allt þetta var svo sett í þennan farveg. Rétt er hjá hv. þingmanni að samkomulag var um að skólinn færi frá landbúnaðarráðuneytinu til menntamálaráðuneytisins og ég var mikill stuðningsmaður þess að menntastofnun eins og háskóli væri undir menntamálaráðuneytinu og tek undir að gott var að við fengum það verkefni að efla skólahald og náðum þar niðurstöðu.

Það sem út af stendur og hefur valdið verulegum erfiðleikum er fjárhagsstaðan. Í tillögunum, sem nefndin skilaði og um var spurt, var gert ráð fyrir að skólanum yrði ekki breytt í sjálfseignarstofnun fyrr en árið 2010. Það átti að taka tíma í að skoða lagabreytingar, bæði búnaðarfræðslulögin og lög um Hólastað, en ég taldi að vísu mikilvægt og hef barist fyrir því að þessi breyting yrði gerð strax, einmitt vegna þeirrar stöðu sem kom fram varðandi skólann.

Það var mikill vansi — ég ætla að segja það hér og hef sagt það við fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra — að þegar skólinn var fluttur frá landbúnaðarráðuneytinu til menntamálaráðuneytisins átti auðvitað að gera upp gamlar skuldir skólans. Þá voru fjárlög með 80 milljarða í afgang en tækifærið var ekki nýtt og þess vegna erum við enn að kljást við þennan vanda. Mikilvægt er að tryggja að skólinn verði rekinn áfram í óbreyttri mynd á hausti komanda. (Forseti hringir.) Ég treysti því að svo verði þrátt fyrir að það sé seinkun núna (Forseti hringir.) vegna þess að breyta þarf bæði búnaðarfræðslulögum og lögum um Hólastað (Forseti hringir.) áður en breyting í sjálfseignarstofnun getur átt sér stað.