136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál.

[13:39]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með svör hv. þingmanns, hæstv. forseta Alþingis, Guðbjarts Hannessonar við þeim spurningum sem fram komu hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um afstöðu hans til ákvörðunar hæstv. menntamálaráðherra um að leggja til hliðar allar þær tillögur sem starfshópur ráðherrans um framtíð Háskólans á Hólum skilaði frá sér á síðasta ári. Ég átti sjálfur sæti í þessum starfshópi ásamt hv. þm. Guðbjarti Hannessyni. Við vorum í öllum grundvallaratriðum sammála um að fara í þær aðgerðir og tillögur sem starfshópurinn skilaði af sér. En nú virðist vera komið annað hljóð í strokkinn hjá hv. þingmanni.

Ljóst er að Háskólinn á Hólum hefur verið í fjárhagserfiðleikum, eiginlega í fjárhagslegri spennitreyju, og honum hefur verið skipaður fjárhaldsmaður. Verkefni okkar var að leggja fram tillögu til að styrkja og efla Háskólann á Hólum til framtíðar og um það var mikil samstaða í hópnum sem ég og hv. þm. Guðbjartur Hannesson sátum í. Þar á meðal voru tillögur um að breyta Hólaskóla í sjálfseignarstofnun, aðskilja ýmsar eignir sem falla undir Hólastað frá skólanum og gefa honum tækifæri til nýrrar sóknar á nýjum sviðum. Nú hefur það hins vegar gerst að hæstv. menntamálaráðherra hefur ýtt öllum tillögunum til hliðar og ég óttast mjög að með því verði málinu og framtíðaruppbyggingu Hólaskóla slegið á frest og ég fæ ekki betur séð en að framtíð skólans sé í mikilli óvissu. Það er auðvitað miður. (Forseti hringir.) Vonandi fer þetta allt saman vel en ég óska eftir efnislegum athugasemdum (Forseti hringir.) hv. þingmanns við þessum aðgerðum hæstv. ráðherra.